Hellt á milli liða í fjárlögum

Atvinnuleysi minnkar en trygginagjaldið lækkar varla.
Atvinnuleysi minnkar en trygginagjaldið lækkar varla. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Það er afar óheppilegt að stjórnvöld skuli hafa fallið í þá freistingu að halda því sem átti að vera tímabundin lausn á miklum vanda. Núna virðist þetta vera varanleg stefna að halda tryggingargjaldinu svo háu og við teljum það ekki vera gott fyrir vöxt í atvinnulífinu,“ segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um tryggingargjaldið sem hækkað var í kjölfar fjármálakreppunnar til að standa undir auknum fjárútlátum Atvinnuleysistryggingasjóðs samhliða auknu atvinnuleysi. 

Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2015 segir að verulegur bati hafi orðið á vinnumarkaði og atvinnuleysi minnkað hraðar en búist var við í fyrstu eftir hrun fjármálakerfisins. Skráð atvinnuleysi var 4,4 prósent árið 2013 en Hagstofan spáir því að það verði komið niður í 3,4 prósent í lok 2018.

Lækkar um 0,1%

Tryggingagjald er skattur sem laungreiðendum ber að inna af hendi af heildarlaunum launamanna sinna á tekjuári eða af eigin reiknuðu endurgjaldi og stendur undir atvinnuleysisbótum og að hluta lífeyrisgreiðslum almannatrygginga.

Á árinu 2014 er tryggingagjaldshlutfallið að meðtöldu markaðsgjaldi og gjaldi í Ábyrgðasjóð launa 7,59% og lækkaði það um 0,1 prósentustig milli ára. Til stendur að lækka gjaldið um eitt prósentustig til viðbótar á árinu 2015 og 0,14 prósentustig á árinu 2016, eða samtals um 0,34 prósentustig

Lækka en hækka á móti

Hannes segir að þegar atvinnuleysi jókst hröðum skrefum eftir hrun hafi Samtök atvinnulífsins mótað þá afstöðu að fjármagna bæri það með samtímasköttum í stað þess að taka lán og greiða það síðar „en þetta var gert í trausti þess að það yrði lækkað aftur þegar atvinnuleysi hjaðnaði,“ segir hann og bendir á að það hafi verið gert að einhverju leyti og atvinnutryggingagjaldið hafi lækkað í fyrra en á móti hafi almannatryggingagjaldið hins vegar hækkað.

„Við teljum tryggingagjaldið vera afar skaðlegan skatt, sérstaklega fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og hamla atvinnusköpun og nýsköpun í atvinnulífinu,“ segir hann.

Þar sem tryggingagjaldið er greitt sem hlutfall af launakostnaði telst það sérstaklega skaðlegt fyrir fyrirtæki með háan launakostnað, s.s. verslunar og þjónustufyrirtæki eða sprotafyrirtæki. „Þetta leggst harkalega á fyrirtæki sem byggja á hugviti og vinnuaflsfrekri starfsemi með allt að 80 prósent launahlutfall. Slík fyrirtæki bera þungar byrðar.“

Ættu heima í sérstökum sjóð

Samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi rennur tryggingargjaldið inn í A-hluta ríkissjóðs sem er stærsti hluti hans. Undir hann fellur rekstur sem veitir almenna þjónustu og er að stærstum hluta fjármagnaður af skatttekjum ríkissjóðs. Hannes segir Samtök atvinnulífsins telja að tryggingargjöldin ættu betur heima í C-hluta ríkissjóðs, sem sjálfstæðum sjóð með ríkisábyrgð, þannig að gjöldin yrðu ekki einungis að reikningsstærð í ríkiskassanum sem hægt sé að hliðra á milli. „Við höfum lýst megnri óánægju með þetta í reglubundnum samskiptum okkar við stjórnvöld og höfum viljað að breytt verði um skipan þannig að atvinnutryggingagjald og Ábyrgðarsjóður launa verði ekki hluti af A-hlutanum og þannig væri ekki verið að hella á milli þessara liða líkt og gert er í hverjum fjárlögum,“ segir Hannes og bætir við að núverandi skipan skapi óstöðugleika og óvissu í kringum réttindi sem stöðugleiki þarf að ríkja um.

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA.
Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK