Markaðurinn að mettast fyrir Domino's

Pítsubakari á Domino's að störfum.
Pítsubakari á Domino's að störfum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Pantanir hjá Domino's hafa í auknum mæli færst yfir á netmiðla og í dag fara um 40 prósent af öllum pöntunum þar í gegn. Vonast er til að hægt verði að fækka starfsmönnum í símaveri með þessari þróun en hingað til hefur það ekki verið hægt vegna vaxandi eftirspurnar.

„Samhliða þessum breytingum hefur heildarveltan aukist mikið. Við áttum von á að geta skorið niður hjá símaverinu en aukningin er hins vegar svo mikil að við höfum ekki náð því,“ segir Magnús Hafliðason, markaðsstjóri Domino's, en bætir þó við að vöxturinn hefði ekki verið mögulegur án netsins.

Reyna að fækka fólki þegar hlutfallið nær 50%

Þegar mest er að gera eru um 55 til 60 manns í vinnu í símaverinu en Magnús vonast til þess að hægt verði að fækka starfsfólki þegar pantanir á netinu verða skriðnar yfir 50 prósent af heildarpöntunum. Aðspurður hvort mögulega væri hægt að loka alfarið fyrir símann segir hann hugmyndina vissulega hafa komið upp og áskorun þess efnis hafi borist að utan „en ég held að síminn verði alltaf til staðar þó svo að það yrði í breyttu formi og þjónustufulltrúar þá kannski frekar í spjalli á netinu,“ segir Magnús.

Opnað var fyrir pantanir á netinu með þeim hætti sem þekkist í dag árið 2012 og var Domino's appið kynnt til sögunnar á sama ári. Magnús segir aukninguna á netpöntunum hafa verið gífurlega til þess að byrja með; 600% á fyrsta árinu, 200% á því næsta en dregið hefur hins vegar úr. „Það hefur eðlilega hægt aðeins á þessu,“ segir hann og bætir við að yngra fólkið sé móttækilegra en eldri markhópurinn og því séu líklega ákveðin mörk á þenslunni.

Íslendingar sólgnir í Domino's

Fleiri Dom­in­o’s-staðir eru á hvern íbúa á Íslandi en í nokkru öðru landi og er velt­an á hvern viðskipta­vin einnig sú mesta. Aðspurður íslenskur markaður bjóði upp á fleiri tækifæri segir hann: „Við erum árum saman búnir að halda að búið sé að ná einhverjum toppi og auðvitað fer að koma að því að markaðurinn verði mettur,“ segir hann. „Við höfum opnað fjórar eða fimm búðir á undanförnum árum og erum í heildina komnir í 19. Við getum líklega opnað einhverjar tvær til þrjár í viðbót og þá hugsa ég að Ísland verði orðið mettað,“ segir hann og bendir einnig á að Domino's á Íslandi sé komið í útrás í Noregi.

Ísland stendur framarlega miðað við aðrar þjóðir ef litið er til pantanna á netinu en efst tróna Bretland og Bandaríkin. Magnús segir þetta vera misjafnt milli markaða en á sumum Domino's stöðum á háskólasvæðum ytra berast yfir 90 prósent pantana í gegnum netið.

Flestir Domino's staðir á hvern íbúa eru á Íslandi.
Flestir Domino's staðir á hvern íbúa eru á Íslandi. Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK