Ísland hf. við hestaheilsu

Íslenskt efnahagslíf er á góðri leið.
Íslenskt efnahagslíf er á góðri leið. mbl.is/Ómar Óskarsson

Langstærstur hluti íslenskra fyrirtækja er með það rúma eiginfjárstöðu að hann gæti vandkvæðalaust ráðist í fjárfestingar sjái fyrirtæki sér hag í því.

Þetta kom fram á morgunfundi Greiningardeildar Arion banka um fjárhagsstöðu fyrirtækja í dag. Aðalefni fundarins var úttekt greiningardeildar á fjárhagsstöðu 194 fyrirtækja byggt á upplýsingum frá Creditinfo. Einnig var farið yfir skuldastöðu fyrirtækja í alþjóðlegum samanburði og hvaða lærdóm megi draga af hagsögunni um hagkerfi sem hafa þurft að vinda ofan af mikilli skuldsetningu í kjölfar fjármálakreppa.

Skuldir ekki lægri í tíu ár

Stefán Broddi Guðjónsson, starfsmaður greiningardeildarinnar, var með erindi þar sem farið var yfir fjárhagslega heilsu íslenskra fyrirtækja. Hann sagði að ef Ísland væri eitt fyrirtæki væri það við hestaheilsu þó svo að í öllum atvinnugreinum væru til fyrirtæki sem standa höllum fæti.

Hann sagði íslensk fyrirtæki vera almennt á réttri leið og meirihluta þeirra í ágætri stöðu þótt nokkuð stór hluti þeirra væri með lágt eiginfjárhlutfall. Efnahagsreikningur 194 af stærstu fyrirtækjum landsins hefur dregist saman og fjárfestingar hafa verið minni en afskriftir. Skuldir fyrirtækja eru orðnar 122 prósent af vergri landsframleiðslu og hafa þær ekki verið lægri í tíu ár auk þes sem eiginfjárhlutfall íslenskra fyrirtækja nálgast fjörtíu prósent og hefur ekki verið hærra í tíu ár. Þá sagði hann að fjárfesting innanlands hefði tekið við sér og hagvaxtarhorfur væru góðar.

Ísland betur statt en Evrópa

Í máli Hrafns Steinarssonar, úr greiningardeild Arion, sem fjallaði um skuldir íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegum samanburði, kom fram að vanskil heimila hér á landi hafa farið lækkandi á meðan þróunin er þveröfug í Evrópu þar sem vanskil eru orðin frekar há. Er vanskilahlutfall íslenskra heimila í dag á svipuðum stað og í Danmörku. 

Þá hafa útlán til fyrirtækja verið að dragast saman í Evrópu en á Íslandi hefur þar verið hóflegur vöxtur. Eiginfjárhlutfall íslenskra fyrirtækja hefur þá farið batnandi en það var að meðaltali um fjörtíu prósent fyrir hrun þegar það féll niður í um tuttugu prósent. Síðan þá hefur hlutfallið batnað og er gert ráð fyrir að það fari yfir 45 prósent árið 2013. Þetta undirstrikar muninn á Íslandi og Evrópu að mati Hrafns. Heildarskuldir fyrirtækja á Íslandi. hafa lækkað, vanskilahlutfall lækkað, eiginfjárhlutfall hækkað og útlán til fyrirtækja eru að aukast. Í Evrópu hefur hins vegar lækkun skulda gengið hægar fyrir sig og eiginfjárhlutfall fyrirtækja er almennt að dragast saman og vanskilahlutfall að aukast.

Stjórnendur bjartsýnir

Væntingar stjórnenda íslenskra fyrirtækja um efnahagshorfur hafa farið hratt batnandi frá ársbyrjun en nú meta um 32 prósent stjórnenda að efnahagshorfur séu góðar og er það um 25 prósentustiga hækkun frá sama tíma í fyrra. „Ýmsar vísbendingar eru því um að hér sé að skapast svigrúm til fjárfestinga hjá fyrirtækjum,“ sagði Hrafn og bætti við að á spátímabili greiningardeildarinnar væri gert ráð fyrir að fjárfesting, sem verið hefur í sögulegu lágmarki myndi nálgast sögulegt meðaltal. 

Arion banki.
Arion banki. mbl.is/Kristinn
Færri íslensk heimili og fyrirtæki eru í vanskilum. Þróunin er …
Færri íslensk heimili og fyrirtæki eru í vanskilum. Þróunin er hins vegar önnur í Evrópu. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK