Aukinn hagnaður hjá HB Granda

Fiskvinnsla HB Granda
Fiskvinnsla HB Granda Ernir Eyjólfsson

Tekjur HB Granda jukust nokkuð á þriðja ársfjórðungi og námu 68,3 milljónum evra á móti 50,7 milljónum evra tekjum á sama tíma í fyrra. Þá jókst hagnaður einnig töluvert og nam 20 milljónum evra en var 9,7 milljónir á þriðja ársfjórðungi 2013. 

EBITDA nam 26,4 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi í ár en 14,9 milljónum evra á sama tímabili í fyrra. Birgðir aukast um 15,9 milljónir evra og viðskiptakröfur um 13,3 milljónir evra frá áramótum og er meginskýringin sögð liggja í árstíðasveiflum.

Þetta kemur fram í ársfjórðungsuppgjöri HB Granda þar sem einnig er tekið fram að Norðanfiskur ehf. sé hluti af samstæðureikningi frá 22. maí 2014.  

Auknar tekjur á fyrstu níu mánuðunum

Þá kemur fram að rekstrartekjur HB Granda hf. á fyrstu níu mánuðum ársins 2014 hafi numið 155,6 milljónum evra, samanborið við 150 árið áður.  Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 45 milljónir evra eða 28,9% af rekstrartekjum, en var 39 milljónir eða 26,0% árið áður.  Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 0,9 milljónir evra, en voru jákvæð um 2,2 á sama tíma árið áður. Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 3,7 milljónir evra, en voru neikvæð um 0,4 árið áður.  Hagnaður fyrir tekjuskatt var 38,8 milljónir evra og hagnaður tímabilsins var 30,6 milljónir evra á móti 25,9 milljónum  fyrstu níu mánuði ársins 2013.  

Aukið eiginfjárhlutfall

Heildareignir félagsins námu 390,5 milljónum evra í lok september 2014. Þar af voru fastafjármunir 296,0 milljónir og veltufjármunir 94,5 milljónir.  Eigið fé nam 215,6 milljónum og eiginfjárhlutfall í lok september var 55,2%, en var 60,5% í lok árs 2013. Heildarskuldir félagsins voru í septemberlok 174,9 milljónir evra.

Óbreyttur skipafloti

Í uppgjörinu kemur fram að skipafloti félagsins var óbreyttur á tímabilinu en unnið er að smíði tveggja nýrra uppsjávarveiðiskipa í Tyrklandi. Gert er ráð fyrir að fyrra skipið verði afhent í apríl á næsta ári og það síðara í lok ársins 2015.  Einnig er verið að leggja lokahönd á hönnun og teikningar þriggja nýrra ísfisktogara sem samið hefur verið um smíði á.

Á fyrstu níu mánuðum ársins 2014 var afli skipa félagsins 41 þúsund tonn af botnfiski og 94 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK