Hannar stærsta tónlistarhús Indlands

Tónlistarhúsið verður það stærsta á Indlandi.
Tónlistarhúsið verður það stærsta á Indlandi. Mynd/Guðjón Bjarnason

Íslenski arkitektinn og listamaðurinn Guðjón Bjarnason, hannaði stærsta tónlistarhús Indlands. Framkvæmdir hófust hinn 23. apríl sl. en Guðjón hafði áður borið sigur úr býtum í opinberri samkeppni um hönnun hússins. Þar verður m.a. 20 þúsund manna útileikhús og tónleikasalur sem rúmar 2.000 manns í sæti.

Guðjón segir bygginguna vera stærsta verk sitt í smíðum þótt enn stærri verk séu í vinnslu á teikniborðinu.

Tónlistarhúsið nefnist SIPAC, eða Shillong International Center of Performing Arts & Culture, og verður í Shillong, höfuðborg Meghalayaríkis á Norðaustur-Indlandi. Borgin er á lágsléttum Himalajafjalla er telst ein helsta miðstöð tónlistar og tísku í landinu.

Framkvæmdir hófust hinn 23. apríl sl. þegar Dr. Mukul Sangma forsætisráðherra Meghalaya afhjúpaði hornstein byggingarinnar ásamt þeim Matsiewdor War, stjórnanda lista- og menningarmála og Clement Marak, menntamálaráðherra landsins.

Tónlistarhúsinu er ætlað að þjóna landinu öllu sem alþjóðleg tónlistar- og listamiðstöð og starfa sem „móðurstöð menningar“ í ríkinu og vinna í samstarfi við minni listsetur í öðrum héröðum.

Eitt þessara listsetra verður í héraðinu Ampati í Garohæðum við landamæri Bangladesh og hannaði Guðjón það einnig. Þar hefjast framkvæmdir á næsta ári.

Umvefur útileikhús

Að sögn Guðjóns byggist aðalbygging SICPAC, þ.e. tónlistarhúsið sjálft, á útsprengdum hvítum formum er umvefja 20 þúsund manna útileikhús.

Þá byggir hönnunin á marghyrndum inngangssal með gegnsæjum innigarði er opnast mót náttúrunni og tengir saman fjóra tónlistarsali. Guðjón segir sérstæða náttúrufegurð Meghalayaríkis hafa verið innblásturinn að hönnuninni; ævaforna tónlistarmenninguna, Himalajafjöllin og þjóðsöng áttbálkanna þriggja sem þar búa.

Aðaltónlistarsalur tónlistarhússins rúmar tvö þúsund manns í sæti og er með miðlægu fjölnotasviði þannig að salurinn á jafnt að nýtast til tískusýninga, sinfóníutónleika, rokktónleika eða annars, líkt og frumsýningu kvikmynda.

Í húsinu er þá egglega 700 manna leikhús- og óperusalur með hefðbundnu leiksviði, 350 manna samhverft tilraunaleikhús með sviði í miðju auk 150 manna tilraunasals fyrir ófyrirséðar uppákomur.

Safn og glæsihótel

Einnig er í húsinu safn til sýningar nútímalistar, ættbálkasafn, nokkrir veislusalir, og veitingastaður með útsýni að Himalajafjöllum. Frá þakrými byggingarinnar er þá útsýni er spannar allan sjóndeildarhringinn og gegnir sá hluti mannvirkisins hlutverki almenningstorgs og hefur sitt eigið útileikahús.

Í aðalskipulagi  tónlistarhússins er gert ráð fyrir glæsihóteli með útsýnissvölum að útileikhúsi tónlistarhússins og sundlaugagarði. Auk þess á þar að vera lista-, handverks- og hönnunarmiðstöð með ráðstefnusölum og gestavinnustofum fyrir alþjóðlega tónlistar- og listamenn.

Fyrirhugað er að GB-AAA, arkitektastofa Guðjóns, verði aðalhönuður allra mannvirkja er svæðinu fylgja. Áætlað er að framkvæmdum ljúki við tónlistarhúsið eftir 30 mánuði en öðrum áföngum seinna. 

Guðjón starfar ýmist á Indlandi, í Bandaríkjunum og á Íslandi við arkitektúr og myndlist en fyrsta verkið í Indlandi tók hann að sér haustið 2011. Þá hélt hann sína fyrstu myndlistasýningu í Delí haustið 2012. „Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og ég hef unnið margar arkitektasamkeppnir um ýmis opinber menningarverkefni,“ segir hann og bætir við að hann hafi einnig verið með listasýningu í Þjóðlistasafni Indlands í upphafi ársins sem vakti mikla athygli.

Guðjón Bjarnason
Guðjón Bjarnason mbl.is/Ómar Óskarsson
Mynd/Guðjón Bjarnason
Tónlistarhúsið er í borginni Shillong, sem telst ein helsta miðstöð …
Tónlistarhúsið er í borginni Shillong, sem telst ein helsta miðstöð tónlistar og tísku í landinu. Mynd/Guðjón Bjarnason
Nokkrir salir eru í húsinu en sá stærsti rúmar tvö …
Nokkrir salir eru í húsinu en sá stærsti rúmar tvö þúsund manns í sæti. Mynd/Guðjón Bjarnason
Mynd/Guðjón Bjarnason
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK