Royale heimsótti Hellisheiðarvirkjun

Ségolène Royale og Ragnheiður Elín.
Ségolène Royale og Ragnheiður Elín. Ljósmynd/Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið

Ségolène Royale, orku- og umhverfisráðherra Frakka, heimsótti Hellisheiðarvirkjun í dag en einungis nokkrir dagar eru síðan hún fékk nýja orkustefnu samþykkta í franska þinginu.

Páll Erland, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, tók á móti henni í Hellisheiðarvirkjun í dag, en hún er hér á landi í boði utanríkisráðherra, Gunnars Braga Sveinssonar, og Ragnheiðar Elínar Árnadóttir, iðnaðarráðherra.

Á vefsíðu Orku náttúrunnar kemur fram að Páll hafi flutt kynningu um rekstur Hellisheiðarvirkjunar og þátt jarðhitans í að Íslendingar framleiði nánast alla raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum og að níu af hverjum tíu húsum séu tengd hitaveitum.

Þá benti hann á að hlutur jarðefnaeldsneytis í allri orkunotkun á Íslandi hafi farið úr 85% í 15% á síðustu áratugum.

Frakkar ætla að draga úr orkunotkun

Franska þingið samþykkti nýja orkustefnu hinn 22. júlí sl. Í henni er lýst þeim markmiðum að draga úr orkunotkun, draga úr losun kotvísýrings og auka framleiðslu rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum um leið og dregið er úr raforkuframleiðslu úr kjarnorku. Frakkar framleiða einna mest rafmagn allra Evrópuþjóða í kjarnorkuverum, eða 75% af allri raforku í landinu.

Þessi markmið, sem á að ná með 20 aðgerðum, sem tilteknar eru í stefnunni, eru tengd Parísarfundi Sameinuðu þjóðanna í haust. Þar munu fulltrúar fjölda ríkja leggja fram fyrirheit um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Ségolène Royale stendur framarlega í frönskum stjórnmálum. Hún sat lengi á þingi og var fyrsta konan til að hljóta tilnefningu flokks síns til forsetakjörs. Hún var frambjóðandi Sósíalistaflokksins árið 2007 en tapaði í kosningunum fyrir Nicolas Sarkozy. Núverandi Frakklandsforseti, Francois Hollande, er fyrrverandi sambýlismaður Royale og eiga þau fjögur börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK