Hvaða máli skipta íþróttir?

Mikilvægt er að leggja meira fjármagn og meiri vinnu í …
Mikilvægt er að leggja meira fjármagn og meiri vinnu í skipulag unglingalandsliða. Koen van Weel

Mikilvægt er að leggja meira fjármagn og meiri vinnu í skipulag unglingalandsliða, stækka afrekssjóð og draga úr brottfalli unglinga úr íþróttum til þess að auka hagrænan ávinning íþrótta á Íslandi.

Þetta kemur fram í áfangaskýrslu um hagræn áhrif íþrótta á Íslandi sem unnin var af dr. Þórólfi Þórlindssyni, prófessor og dr. Viðari Halldórssyni, lektor og var kynnt á málþingi um sama efni í dag.

Fjölmargir angar íþrótta

Í skýrslunni eru efnahagsleg áhrif íþrótta flokkuð í átta þætti. Í fyrsta lagi er það hefðbundin íþróttastarfsemi, sem stendur undir verulegum hluta af framlagi íþróttastarfs til íslensks efnahagslífs. Þá má nefna íþróttaviðburði, þótt alþjóðlegir viðburðir hafi ekki haft mikil áhrif á Íslandi hingað til, hafa innlendir viðburðir haft nokkur áhrif. 

Í þriðja lagi eru íþróttatengd ferðamennska, líkt og golfferðir, hjólreiðaferðir, almenningshlaup og alls konar æfingabúðir íþróttaliða og hópa, sem hafa töluverð áhrif. Þá er framleiðsla og sala á íþróttavörum einnig stór og vaxandi atvinnuvegur á Íslandi. Fjölmiðlar vega einnig þungt þar sem háar fjárhæðir fara í útsendingu frá íþróttaviðburðum sem fjármagnaðar eru með auglýsingatekjum.

Þá hefur stöðugildum í íþróttastarfinu fjölgað með aukinni þátttöku í íþróttastarfi og auknum kröfum um menntun og fagmennsku í þjálfun auk þess sem svokallaður mann- og félagsauður getur haft áhrif, en með því er átt við að menntun í greininni leiði til aukinnar framleiðslu og nýsköpunar. Erfitt er hins vegar að leggja traust mat á framlag af þessu tagi.

Mynd/Íþróttir á Íslandi: Umfang og hagræn áhrif

15,9 milljarða velta

Til þess að leggja mat á hagrænt umfang íþróttahreyfingarinnar er hægt að líta til heildarveltu. Árið 2012 var heildarveltan 15,9 milljarðar króna en hún er reiknuð sem samtala allra tekjuliða sérsambanda, íþróttahéraða og íþróttafélaga innan ÍSÍ. Að frádregnum styrkjum til deilda er hún hins vegar 12,8 milljarðar króna.

Til þess að setja þessar tölur í samhengi má nefna að árið 2012 var landsframleiðsla Íslands um 1.699 milljarðar króna. Á tímabilinu frá 2003 til 2012 hefur beint framlag íþróttahreyfingarinnar til landsframleiðslu verið um 0,4 %.

Á árinu 2012 var hagnaður sérsambanda ÍSÍ um 220 milljónir króna og er hann í samræmi við hagnað undanfarinna ára ef árið 2008 er undanskilið þegar hagnaðurinn nam 14 milljónum króna. Stærsti gjaldaliðurinn er ferðakostnaður á mót erlendis auk launa og verktakagreiðslna.

Mynd/Íþróttir á Íslandi: Umfang og hagræn áhrif

100.000 á ári

Í skýrslunni kemur jafnframt fram að gera megi ráð fyrir að meðaltalskostnaður vegna grunnútgjalda unglings í skipulögðu íþróttastarfi sé mjög varlega áætlaður í kringum eitt hundrað þúsund krónur á ári.

Iðkendur innan íþróttahreyfingarinnar 15 ára og yngri voru ríflega 34.000 árið 2011. Má því áætla að grunnkostnaður íslenskra fjölskyldna fyrir skipulagðar íþróttir barna og ungmenna 15 ára og yngri sé að lágmarki 3 til 4 milljarðar ár hvert – fyrir utan aðra íþróttaiðkun, líkamsrækt og afþreyingu sem þau stunda utan íþróttahreyfingarinnar.

Bent er á að góður árangur íslenskra íþróttamanna veki almennt athygli á erlendri grundu og eru vísbendingar um að afreksíþróttastarf geti skapað umtalsverðar erlendar tekjur sem og þekkingu sem nýtist íslensku samfélagi.

Hluti þess erlenda fjármagns sem kemur inn í íslenskt samfélag kemur með beinum hætti í gegnum íþróttahreyfinguna og beð óbeinum hætti í gegnum afreksmennsku. Þar að auki má ætla að hluti komi inn í gegnum landkynningar sem vekja athygli á landi og þjóð og trú fólks á að Íslendingar séu þjóð sem nær árangri.

Mynd/Íþróttir á Íslandi: Umfang og hagræn áhrif

Íþróttir skila meiru á komandi árum

Í niðurstöðu skýrslunnar segir að sú mikla áhersla sem lögð hefur verið á að skipuleggja íþróttir fyrir alla hafi skilað sér í öflugu íþróttastarfi á mörgum sviðum. Áherslan á rétt allra barna og unglinga til þess að stunda íþróttir hefur stuðlað að aukinni þátttöku í íþróttum og lagt grunnin að þjóðfélagslegu gildi þeirra. Gera má því ráð fyrir að hagrænt gildi íþrótta muni aukast á komandi árum.

Eins og áður segir er hins vegar talið mikilvægt að skoða hvernig draga megi úr brottfalli sem er mikið á tiltölulega litlu aldursbili unglingaskeiðsins. Þá sé mikilvægt að brúa bilið frá barna- og unglingaíþróttum annars vegar yfir í afreksmennsku og hins vegar yfir í almenningsíþróttir.

Í einstaklingsíþróttunum gæti stækkun afrekssjóðs breytt miklu en hvað boltagreinarnar varðar væri t.d. mikilvægt að leggja meira fjármagn og meiri vinnu í skipulag unglingalandsliða.

Síðast en ekki síst sé brýnt að glata ekki heildarsýn og mikilvægt að freista þess að láta hinar ýmsu íþróttagreinar og ólíka flokka íþrótta vinna betur saman.



mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK