Sameinuðu þjóðirnar verðlauna Meniga

Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga.
Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga.

Í dag var tilkynnt að íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Meniga hlyti verðlaun fyrir bestu tæknilausnina í flokki viðskipta og verslunar á World Summit Award, alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin er á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Á ráðstefnunni eru þau fyrirtæki verðlaunuð sem þykja skara framúr í þróun á samfélagslega ábyrgum tækninýjungum og hjálpa fólki um allan heim. Alls bárust ráðstefnunni rúmlega 400 tilnefningar í ár frá 178 löndum víðs vegar að úr heiminum og verða 40 fyrirtæki verðlaunuð alls. Aðildarþjóðir Sameinuðu þjóðanna tilnefna eina vöru í hverjum flokki og var framlag Íslands í ár frá Meniga.

Mikill heiður fyrir Meniga

Verðlaunaafhendingin fer fram í Shenzhen í Kína í febrúar næstkomandi á heimsþingi World Summit Global þar sem fulltrúar Sameinuðu þjóðanna, fulltrúar ráðuneyta, sérfræðingar í upplýsinga- og samskiptatækni og fulltrúar stórfyrirtækja koma saman.

Í fréttatilkynningu um verðlaunin segir Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga, þau vera gríðarlegan heiður.

„Betra fjármálalæsi og skynsamlegri fjármálahegðun einstaklinga og heimila er eitt stærsta tækifæri samtímans til að bæta lífsgæði um allan heim. Það er því virkilega ánægjulegt að fá þessa virðulegu hvatningu frá Sameinuðu þjóðunum í gegnum World Summit Award en þessi verðlaun snúast fyrst og fremst um jákvæð samfélagsleg áhrif af viðskiptum. Það hefur verið markmið Meniga frá upphafi að búa til lausnir sem hjálpa einstaklingum og fjölskyldum um allan heim með fjármálin sín og því hafa þessi verðlaun sérstaka þýðingu fyrir okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK