10.000 krónur ekki á leiðinni út

Í dag eru tæplega tvær milljónir tíu þúsund króna seðla …
Í dag eru tæplega tvær milljónir tíu þúsund króna seðla í umferð. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það er þekkt í sögunni að í einhverjum tilvikum reyna þeir sem eru að brjóta lög eða reglur með viðskiptum sínum að fela slóð sína með því að nota reiðufé í stað ýmiss konar reikningsviðskipta,“ segir Stefán Jóhann Stefánsson, upplýsingafulltrúi Seðlabankans, aðspurður um umræðu um útgáfu á stórum peningaseðlum erlendis.

Mbl greindi í gær frá nýrri skýrslu sem Peter Sands, fyrr­um banka­stjóri Stand­ard Chart­ered bank, vann fyr­ir Har­vard Kenn­e­dy skól­ann. Hann tel­ur að seðlabank­ar ættu að hætta að gefa út fimm­tíu punda seðla, hundrað doll­ara seðla og 500 evra seðla. Slík­ir seðlar séu aðallega notaðir af hryðju­verka­mönn­um, eit­ur­lyfja­söl­um og skattsvik­ur­um. Þannig þjóni þeir fyrst og fremst þörfum svarta hagkerfisins.

Þá sagðist fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins í síðustu viku ætla að skoða mögu­lega tengsl milli 500 evru seðla og hryðju­verk­a­starf­semi.

Frétt mbl.is: Vill banna stóra seðla

Fimmtíu punda og eitt hundrað dollara seðlarnir eru á pari við íslensku tíu þúsund krónurnar sem fóru í umferð árið 2013.

Stefán segir enga sérstaka umræða um þessi atriði vera innan Seðlabankans. 

„Seðlabanki Íslands, eins og aðrir seðlabankar, þarf að anna eftirspurn eftir peningum í samfélaginu,“ segir hann. „Einstaklingar og fyrirtæki þurfa í talsverðum mæli á mynt og seðlum að halda til þess að viðskipti geti gengið eðlilega fyrir sig.“

Hann segir hlutdeild reiðufés í svarta hagkerfinu á Íslandi vera óþekkta. „Ekki er ljóst hve mikið þetta kann að vera en það eru fyrst og fremst önnur stjórnvöld og eftirlitsaðilar en Seðlabankinn sem hafa það hlutverk hér á landi að rannsaka þetta og bregðast við ef ástæða er til.“

Þá segir hann alls óvíst að fjárhæðir gildandi seðla hafi nokkur teljandi áhrif á afbrot af því tagi sem um er fjallað.

Minni fjárhæð en í nágrannalöndum

Stærsti íslenski seðillinn er að andvirði tíu þúsund krónur.

Stefán bendir á að það sé talsvert minni fjárhæð en er víða annars staðar í nágrannalöndunum þar sem fjárhæð seðils getur hlaupið á sem svarar nokkrum tugum þúsunda króna.

Hann segir eftirspurn ráða því að nýr seðill með hærra verðgildi sé settur í umferð. Auk þess sem verðbreytingar síðustu ára og áratuga spili þar inn í.

Að sögn Stefáns hefur seðlanotkun aukist nokkuð hér á landi vegna aukins fjölda ferðamanna og bætir hann við að mjög hátt hlutfall af heildarverðmæti seðla í umferð hafi verið í formi fimm þúsund króna seðla áður en tíu þúsund króna seðillinn var settur í umferð. 

Þess vegna hafi verið hagkvæmara að setja tíu þúsund króna seðil í umferð því þá verða færri seðlar í umferð en ella.

Tilgangurinn með útgáfu seðilsins hafi þannig verið að gera greiðslumiðlun á Íslandi liprari og hagkvæmari, meðal annars með því að fækka seðlum í umferð.

Þá séu einnig umhverfisverndarsjónarmið á ferðinni þar sem tíu þúsund króna seðillinn á að endast margfalt lengur en sumir aðrir seðlar.

Nú eru tæplega tvær milljónir tíu þúsund króna seðla í umferð og er andvirðið 38 prósent af heildarvirði seðla í umferð. Hlutur fimm þúsund króna seðla hefur farið lækkandi en samt er fjöldi þeirra í umferð um fimm milljónir seðla.

Etirspurn ræður því að nýr seðill með hærra verðgildi er …
Etirspurn ræður því að nýr seðill með hærra verðgildi er settur í umferð mbl.is/Árni Sæberg
Fam­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins er að skoða mögu­leg tengsl milli 500 evru …
Fam­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins er að skoða mögu­leg tengsl milli 500 evru seðla og hryðju­verk­a­starf­semi.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK