Fundu skjalatösku fulla af evrum

Thomas Wagner lét lífið í flugslysinu.
Thomas Wagner lét lífið í flugslysinu. Ljósmynd/Unister

Fjórum dögum eftir að stofnandi þýska netfyrirtækisins Unister lét lífið í flugslysi í Slóveníu lýsti fyrirtækið sig gjaldþrota. Skjalataska full af peningum, milljónum evra, fannst í flugvélinni.

Lucas Flöther, þýskur lögmaður sem hefur verið skipaður skiptastjóri búsins, segir að dauðsfall mannsins, Thomas Wagners, hafi verið „vendipunktur“ fyrir fyrirtækið.

Wagner og þrír félagar hans létu lífið fyrr í mánuðinum þegar einkaflugvél þeirra hrapaði í fjallendi í Slóveníu.

Flugvélin var á leið frá Feneyjum á Ítalíu, þar sem þeir höfðu fundað með hugsanlegum fjárfestum. Á meðal hinna látnu var Oliver Schilling, meðstofnandi Unister.

Reyndi að fá þá til að lána sér pening

Þýska dagblaðið Bild greindi frá því að skjalataska, með milljónum evra í reiðufé, hefði fundist við flak vélarinnar. Fram kom í öðru þýsku dagblaði, Süddeutsche Zeitung, að Wagner hefði reynt að fá ítalska fjárfesta til þess að lána fyrirtækinu heilmiklar fjárhæðir, til þess að bjarga fyrirtækinu frá gjaldþroti, og ætlað að nota féð í skjalatöskunni sem tryggingarfé.

Fjárfestarnir hefðu hins vegar ekki haft áhuga á því og sagt þvert nei.

Starfsemin áfram í eðlilegu horfi

Flöther sagði að ákvörðunin um að taka félagið til gjaldþrotameðferðar hefði aðeins áhrif á móðurfélag Unister en ekki dótturfélög þess. Starfsemi þeirra, þar á meðal allar helstu vefsíður fyrirtækisins, yrði áfram í eðlilegu horfi.

„Gjaldþrotið veitir umfram allt fjárhagslegt öryggi til styttri tíma,“ sagði hann. Móðurfélagi Unister, Unister Holding, yrði þannig kleift að komast aftur á réttan kjöl.

Wagner, sem fæddist í Austur-Þýskalandi árið 1978, var einn af helstu frumkvöðlum Þýskalands á sviði alnetsins. Hann stofnaði sitt fyrsta fyrirtæki 23 ára að aldri, þá sem háskólanemandi.

Segja má að Wagner hafi gjörbreytt þýskri ferðaþjónustu, en ferðalangar gátu pantað flug og hótelgistingu á vefsíðu hans með afar einföldum hætti. Það þótti mikil bylting á sínum tíma, árið 2001. Meira en þrjár milljónir manna heimsóttu eina af síðum hans, Ab-in-den-Urlaub.de, í hverjum mánuði.

Undir smásjá lögreglunnar

Wagner þótti þó umdeildur. Lögreglan réðst til að mynda inn í höfuðstöðvar Unister árið 2012 og handtók hann og aðstoðarmann hans. Voru þeir grunaðir um að skjóta undan skatti og selja ferðatryggingar í leyfisleysi. Wagner neitaði sök.

Ljósmynd/Unister

Ári síðar réðust lögreglumenn aftur inn til hans, þá vegna gruns um að Unister hefði selt yfir sextíu þúsund flugferðir á vegum þýska flugfélagsins Lufthansa með ólöglegum hætti á vefsíðu sinni. Rannsókn málsins stendur enn yfir.

Wagner sagðist í blaðaviðtali í fyrra vera hafður fyrir rangri sök. Hann vann þó með lögreglunni, var samstarfsfús og bætti í kjölfarið verkferla fyrirtækisins.

Bág fjárhagsstaða

Unister var sett á stofn árið 2002. Vöxturinn var mikill, gríðarmikill, og áður en langt um leið var fyrirtækið orðið algjört netveldi með um fjörutíu vefsíður. Ferðasíður Unister njóta mikilla vinsælda, sér í lagi í Þýskalandi.

Fjárhagsstaða fyrirtækisins hefur þó ávallt verið bág. 1.100 manns starfa hjá Unister en Wagner tilkynnti í fyrra að 150 manns yrði umsvifalaust sagt upp. Um leið myndu sparast þrjátíu milljónir evra á ári.

Þá seldi fyrirtækið nýlega eina af vefsíðum sínum, Geld.de, í tekjuöflunarskyni. Fyrirtækið átti einnig í viðræðum við þýsku sjónvarpsstöðina ProSiebenSat og miðasölufyrirtækið CTS Eventim um að selja þeim ferðasíður sínar, en viðræðurnar runnu hins vegar út í sandinn.

Frétt Financial Times

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK