Fjárfestar setja 650 milljónir í Mint Solution

Gauti Þór Reynisson, framkvæmdastjóri Mint Solutions, og Miriam Dragstra, forstjóri …
Gauti Þór Reynisson, framkvæmdastjóri Mint Solutions, og Miriam Dragstra, forstjóri BOM Capital. Myndin var tekin við opnun AEX-hlutabréfamarkaðarins í Amsterdam þar sem tilkynnt var um fjárfestinguna.

Íslensk-hollenska hátæknifyrirtækið Mint solutions tilkynnti í dag um 650 milljóna fjárfestingu í fyrirtækinu, en hópur núverandi eigenda auk hollensks fjárfestingasjóðs standa á bak við fjárfestinguna núna. Áður hafði fyrirtækið fjármagnað sig tvisvar, samtals upp á 5,5 milljónir evra eða um 715 milljónir króna.

Gauti Þór Reynisson, framkvæmdastjóri Mint, segir í samtali við mbl.is að fjármögnunin núna sé hugsuð til að stíga næstu skref í sölu- og markaðsstarfi fyrirtækisins. Fyrirtækið var stofnað árið 2009 og hefur síðan þá unnið að þróun lyfjaöryggiskerfisins MedEye. Kerfið bætir lyfjaöryggi á sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum með því að gera hjúkrunarfræðingum kleift að skanna öll lyf sjúklinga, rétt áður en þau eru gefin. Þannig er tryggt að lyfjagjöf sé í samræmi við lyfseðil og fyrirmæli lækna.

Frétt mbl.is: Fjárfest í Mint fyrir 700 milljónir

Öll þróunarvinna fer fram á Íslandi. Fyrirtækið er nú með 18 starfsmenn, níu hér á landi og níu í Hollandi, sem er stærsti markaður þess. Með fjárfestingunni stefnir Mint Solutions á frekari landvinninga á alþjóðlegum mörkuðum, m.a. í Belgíu, Bretlandi og Bandaríkjunum. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fjárfesti í félaginu árið 2011 og hefur fylgt fjárfestingunni eftir síðan þá.

Gauti segir að stærstu hluthafar í fyrirtækinu eftir fjármögnunina núna séu félögin LSP, Seventure Partners og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, sem öll höfðu áður fjárfest í félaginu. Til viðbótar bætist BOM Capital í Hollandi sem leiddi þessa fjárfestingu. Auk þess eiga starfsmenn og stofnendur hlut í fyrirtækinu, en fyrrnefndu fjórir sjóðirnir eiga stærstan hlut að sögn Gauta.

MedEye er notað á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum til að koma …
MedEye er notað á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum til að koma í veg fyrir ranga lyfjagjöf. Mynd/Mint Solutions

MedEye er komið í notkun á fjórum hollenskum sjúkrahúsum og verið er að innleiða kerfið á þremur til viðbótar.  Í tilkynningunni er haft eftir Gauta að MedEye hafi nú þegar sannað gildi sitt og komið í veg fyrir fjölda lyfjamistaka.

„Sem dæmi hefur Deventer-sjúkrahúsið í Hollandi verið með MedEye í notkun síðan í ágúst á síðasta ári og kerfið er nú notað við öll 250 sjúkrarúm spítalans. Á þessum tíma höfum við komið í veg fyrir yfir þúsund rangar lyfjagjafir.“

Viðræður standa nú yfir við mörg stærstu sjúkrahús Hollands, þar á meðal háskólasjúkrahús. Gauti segir því von á fleiri góðum fréttum af fyrirtækinu. Gauti segir við mbl.is að á endanum sé svo stefnt inn á Bandaríkjamarkað með vöruna. Segir hann að hingað til hafi uppbyggingaráform gengið eftir að stærstum hluta og horft hafi verið til þess að vera með fullþróaða vöru og fara inn á fleiri markaði á þessum tímapunkti. Það hafi tekist. „Svo eru stærri skref á næstu árum. Við erum ekki hætt að stækka eða leita að fjármagni,“ segir Gauti.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK