Staðfesti ákvarðanirnar að mestu leyti

Félögin kærðu ákvarðanirnar til áfrýjunarnefndar neytendamála og voru þær að …
Félögin kærðu ákvarðanirnar til áfrýjunarnefndar neytendamála og voru þær að mestu leyti staðfestar en hluti þeirra var þó felldur úr gildi. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur staðfest að mestu leyti ákvarðanir Neytendastofu þess efnis að Kredia og Smálán hafi brotið gegn lögum um neytendalán. Neytendastofa tók þá ákvörðun að smálánafyrirtækin hafi brotið gegn lögum um neytendalán við útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar og upplýsingagjöf til neytenda í tengslum við lán sem félögin veita neytendum en ákvarðanirnar voru teknar í maí.

Félögin kærðu ákvarðanirnar til áfrýjunarnefndar neytendamála og voru þær að mestu leyti staðfestar en hluti þeirra var þó felldur úr gildi.

Á vef Neytendastofu segir að athugasemdirnar hafi verið þríþættar þar sem í fyrsta lagi voru gerðar athugasemdir við útreikning heildarlántökukostnaðar og árlegrar hlutfallstölu kostnaðar. Í öðru lagi voru gerðar athugasemdir við upplýsingar í stöðluðu eyðublaði sem afhenda skal fyrir gerð lánssamnings og í þriðja lagi við upplýsingar í lánssamningi.

Áfrýjunarnefndin staðfesti þá ákvörðun Neytendastofu að reikna skyldi kaupverð rafbóka sem hluta af kostnaði við lán og að með því væri brotið gegn ákvæði laganna um hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar. 

Þá staðfesti áfrýjunarnefndin að brotið hafi verið gegn upplýsingaskylduákvæðum c., e., g. og l. lið 4. mgr. 7. gr. um upplýsingar sem veita skal áður en lánssamningur er gerður og ákvæðum e., g., h., l. og v. lið 2. mgr. 12. gr. um upplýsingar sem fram skulu koma í lánssamningi. 

Áfrýjunarnefndin felldi úr gildi ákvörðun Neytendastofu um að brotið hafi verið gegn ákvæðum 1. mgr. og d. og f. lið 4. mgr. 7. gr. og a., c., f., j., q., s. og t. lið 2. mgr. 12. gr. 

Að lokum fjallaði nefndin um þá ákvörðun Neytendastofu að leggja 750.000 kr. stjórnvaldssekt á hvort félag og athugasemdir félaganna um að Neytendastofa hafi brotið gegn leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga. Niðurstaða nefndarinnar hvað þetta varðar var sú að sektirnar voru staðfestar og ekki var talið að brotið hafi verið gegn leiðbeiningarskyldu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK