Pentair AES kaupir Vaka

Hátæknifyrirtækið Vaki hefur verið keypt af bandaríska fyrirtækinu Pentair Aquatic …
Hátæknifyrirtækið Vaki hefur verið keypt af bandaríska fyrirtækinu Pentair Aquatic Eco Systems Ltd. Hjá Vaka starfa 28 manns hér á landi. Ljósmynd/Vaki

Hátæknifyrirtækið Vaki fiskeldiskerfi hefur fengið nýja eigendur. Bandaríska fyrirtækið Pentair Aquatic Eco Systems Ltd. hefur fest kaup á öllu hlutafé í Vaka og er stefnt að fullnustu samninganna í nóvember næstkomandi, að því er segir í fréttatilkynningu.

Velta Vaka á árinu stefnir í tæpar 1.300 milljónir og hjá fyrirtækinu starfa nú 28 manns hér á Íslandi, auk 22 til viðbótar hjá dótturfélögum í Síle, Noregi og Skotlandi.

Yfir 90% af umsvifum Vaka eru á erlendum mörkuðum, en áherslan hér heima er á vöruþróun, þjónustu og sölu. Framleiðslan hefur að mestu leyti verið hjá íslenskum undirverktökum sem sinna rafeindavinnu, stálsmíði og samsetningu af ýmsum toga.

Helstu vörur Vaka eru fiskiteljarar og búnaður til stærðarmælinga á eldisfiski, ásamt dælum, flokkurum, fóðurkerfi og öðrum vörum fyrir iðnvætt fiskeldi.

Pentair AES er ekki fyrsta fyrirtækið sem sýnir Vaka áhuga, en kaupin eiga sér nokkurn aðdraganda og eru sögð mikil viðurkenning á stöðu og starfsemi Vaka undanfarin ár. Ekki er gert ráð fyrir miklum breytingum á rekstri fyrirtækisins hér heima og munu stjórnendur Vaka halda áfram að stýra rekstri þess eftir sameininguna, ásamt því að leiða sókn með nýjar vörur inn á þá markaði þar sem Vaki hefur verið leiðandi.

Móðurfyrirtæki Pentair AES, Pentair, er skráð í kauphöllinni í New York (NYSE) og hefur 30.000 starfsmenn í 60 löndum sem starfa m.a. innan orkugeirans, matvælaiðnaðar, vatnsmeðhöndlunar og fjarskipta og er veltan um átta milljarðar dollara.

Helstu vörur Pentair AES eru búnaður til vatnshreinsunar og auðgunar vatnsgæða, hönnun endurnýtingarkerfa fyrir fiskeldisstöðvar, vatnsdælur, fiskidælur og mælibúnaður af ýmsum toga.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK