Trudeau ekki til Brussel

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. AFP

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hefur aflýst heimsókn sinni til Belgíu, vegna þráteflisins á milli þjóðanna varðandi samþykki Ceta-samningsins.

Til stóð að hafa hátíðlega athöfn í Brussel í dag þar sem samningurinn yrði undirritaður, en um er að ræða fríverslunarsamning milli Kanada og Evrópusambandsins. Allar þjóðir sambandsins hafa samþykkt Ceta, nema Belgía, vegna andstöðu stjórnar Vallóníu gegn honum.

Stjórnvöld í Belgíu stefna nú að því að halda viðræðum áfram við stjórnmálamenn í Vallóníu, en sjö ár tók að búa til samninginn.

Stjórnvöld í Belgíu geta ekki samþykkt Ceta án þess að fá samþykki frá öllum sex þingum landsins. Vallónía er frönskumælandi svæði Belgíu, þar sem 3,6 milljónir manna búa. Ástæður þess að þeir eru á móti samningum eru margvíslegar en m.a. er óttast að samningurinn myndi ekki verja bændur í Vallóníu gegn aukinni samkeppni frá Kanada.

Eins og fyrr segir hafa allar aðrar þjóðir Evrópusambandsins lýst yfir stuðningi við Ceta og hefur Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdaráðs Evrópusambandsins, sagst vera jákvæður fyrir því að enn sé hægt að leysa málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK