Munu ekki fljúga til Nice í sumar

Íslendingar fjölmenntu til Nice síðasta sumar til þess að sjá …
Íslendingar fjölmenntu til Nice síðasta sumar til þess að sjá leik íslenska landsliðsins í knattspyrnu við það enska. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ekki verður framhald á áætlunarflugi WOW air til frönsku borgarinnar Nice í sumar. Síðasta sumar var í fyrsta skiptið boðið upp á áætlunarferðir frá Íslandi til Nice en þá flugu þotur WOW air til borgarinnar tvisvar í viku. Nú hefur Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air staðfest í samtali við Túrista.is að ekki verði haldið áfram ferðum til Nice í sumar.

Í frétt Túrista er bent á að samgöngur héðan við Frakklands takmarkast við París auk sumarflugs WOW air til Lyon.

„Flugið til Nice var því vafalítið kærkomið því það auðveldaði aðgengið að Rivíerunni, Provence héraði og þaðan eru líka tíðar ferjusiglingar til Korsíku,“segir í fréttinni.

Þá er bent á að borgin sjálf sé vinsæll áfangastaður en nokkur samdráttur hefur orðið í ferðaþjónustunni þar eftir hryðjuverkaárásina á þjóðhátíðardegi Frakka þann 14. júlí í fyrra. Þá létust á níunda tug manna og meira en hundrað slösuðust þegar flutningabíl var ekið inn í mannfjölda.

„En þrátt fyrir að ekkert verði úr fluginu til Nice í sumar þá hafa Íslendingar á leið til Frakklands í sumar úr töluverðu að moða því auk flugsins til Parísar og Lyon þá geta áætlunarferðir easyJet og Icelandair til Genfar komið að góðum notum því svissneska úraborgin er skammt frá landamærunum og sömu sögu er að segja um Baselflug easyJet. Svo er ekki ýkja langt frá Barcelona að landamærum Spánar og Frakklands og áætlunarflugið til Brussel gæti hentað þeim sem ætla að heimsækja nyrstu hluta Frakklands. En Icelandair flýgur beint til belgísku höfuðborgarinnar og þangað mun WOW air fara jómfrúarferð sína í sumarbyrjun,“ segir í frétt Túrista.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK