Allt að 6 milljarða tap vegna óeðlilegrar milliverðlagningar

Tillögur starfshópsins voru kynntar í fjármálaráðuneytinu í dag.
Tillögur starfshópsins voru kynntar í fjármálaráðuneytinu í dag. mbl.is/Hanna

Árlegt tekjutap ríkissjóðs vegna óeðlilegrar milliverðlagningar tengdra lögaðila getur verið á bilinu 1 til 6 milljarðar króna. Mikilvægt er að átak verði gert í milliverðlagningareftirliti hér á landi með árangur og ávinning nágrannaríkja okkar að leiðarljósi.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu starfshóps um milliverðlagningu og faktúrufölsun í utanríkisviðskiptum. Starfshópnum var ætlað að skoða mögulegar umbætur á lagaumgjörð og regluverki milliríkjaviðskipta, með hliðsjón af reynslu annarra þjóða en hann kynnti tillögur sínar í fjármálaráðuneytinu í dag. 

Auka þarf eftirlit og nýta reynslu, þekkingu og vilja annarra ríkja

Það er mat hópsins að auka þurfi eftirlit með óeðlilegri milliverðlagningu tengdra lögaðila með öllum tiltækum ráðum og nýta reynslu, þekkingu og vilja annarra ríkja, t.a.m. Danmerkur og Noregs, til að aðstoða íslensk stjórnvöld við að hefja átak í milliverðlagningareftirliti.

Þá þarf að tryggja að virkt eftirlit sé með skjölunarskyldu stærri fyrirtækja; því hvernig fyrirtækjasamstæðum er gert að skila ýmsum skýrslum um afkomu og innri viðskipti, beita á sektum ef skjölunargögnum er ekki skilað innan tilskilins frests og gera lagabreytingu þannig að skjölunarskyldan nái jafnframt til innlendra aðila. Slíkt væri m.a. gert til tryggja samræmi skv. EES-samningnum.

Vilja lögfesta ákvæði um raunverulega eigendur

Hópurinn telur jafnframt að það þurfi að auka samstarf bæði innanlands og utan, m.a. milli stofnana skatta- og tollamála á sviði milliverðlagningar, þ.m.t. faktúrufölsunar, ásamt því að lögfesta ákvæði er auðvelda upplýsingaskipti þeirra og vísa ætti málum til skattrannsóknarstjóra þegar grunur vaknar um skattalagabrot.

Þá telur hann að það þurfi að skilgreina betur hvað átt er við með raunverulegri framkvæmdastjórn í tekjuskattslögum og lögfesta ákvæði um raunverulega eigendur og tryggja enn fremur að ekki sé gefin út kennitala til erlendra lögaðila nema ljóst liggi fyrir hverjir standi að baki lögaðilanum, þ.e. að raunverulegur eigandi aðilans sé þekktur. Þá þarf að tryggja skattyfirvöldum upplýsingar um fjármagnsflutninga milli landa frá fjármálafyrirtækjum og upplýsingar frá erlendum fjármálafyrirtækjum þurfa að vera forskráðar á skattframtöl.

Í starfshópnum áttu sæti Anna Borgþórsdóttir Olsen formaður, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Andri Egilsson, Seðlabanka Íslands, Auður Ólína Svavarsdóttir, Hagstofu Íslands, Jóhanna Lára Guðbrandsdóttir, tollstjóra, Margrét Ágústa Sigurðardóttir, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Sigurður H. Ingimarsson, skattrannsóknarstjóra, Sigurður Jensson, ríkisskattstjóra, og Íris Hannah Atladóttir, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, sem starfsmaður hópsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK