Eyða minna í fatnað og minjagripi

„Það lítur því út fyrir að vegna styrkingar krónunnar kjósi …
„Það lítur því út fyrir að vegna styrkingar krónunnar kjósi erlendir ferðamenn að eyða minna í hluti eins og fatnað og minjagripi en eyði þess í stað hlutfallslega meira í matvöru og hvers kyns ferðatengda upplifun,“ segir í Hagsjá. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Heildarkortavelta erlendra ferðamanna nam 21,1 milljarði króna í maí og jókst um 1,3 milljarða króna eða 6,4%, miðað við sama mánuð í fyrra samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands. Í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans er bent á að þetta sé töluvert minni vöxtur en verið hefur á síðustu árum, en fara þarf aftur til desember árið 2010 til að finna lægri vöxt í krónum talið, mælt á verðlagi hvers árs.

„Þróun veltunnar mælt á föstu gengi gefur betri mynd af eyðslu ferðamanna í þeirra heimagjaldmiðlum og gjaldeyristekjum þjóðarbúsins af ferðaþjónustu. Á þann mælikvarða jókst heildargreiðslukortavelta ferðamanna um 31% í maí miðað við sama tíma í fyrra. Fyrstu 5 mánuði ársins nam aukningin rúmlega 50%,“ segir í Hagsjá.

Meðalútgjöld hafa lækkað en hafa þó aldrei mælst meiri

Meðalútgjöld erlendra ferðamanna í maí voru um 144 þúsund krónur á mann en á sama tíma í fyrra námu meðalútgjöld þeirra um 160 þúsund krónum á mann. „Við fyrstu sýn lítur út fyrir að útgjöld ferðamanna séu að dragast saman milli ára en á verðlagi hvers árs lækkuðu meðalútgjöld þeirra um 10% milli ára en um 7% að teknu tilliti til verðlags (vísitala neysluverðs án húsnæðiskostnaðar lækkaði um 2,5% milli ára),“ segir í Hagsjá.

„Séu meðalútgjöldin hins vegar mæld í erlendum gjaldeyri snýst myndin við og í ljós kemur að gjaldeyrisútgjöld erlendra ferðamanna jukust í raun um 18% milli ára og hafa í raun aldrei mælst meiri.“

18,9% samdráttur í minjagripaverslun

Í Hagsjá segir að þrátt fyrir að kortaveltan hafi aukist í heild sinni í krónum talið frá maí í fyrra hafa útgjöld ferðamanna til einstakra útgjaldaliða í sumum tilfellum dregist saman en það hefur verið mjög fátíð þróun síðustu ár.

Samdrátturinn var hlutfallslega mestur í gjafa- og minjagripaverslun eða 18,9%, næstmestur í annarri verslun eða 10,9% en næst komu tollfrjáls verslun með 7,4% og fataverslun með 5,9% samdrátt.

„Það lítur því út fyrir að vegna styrkingar krónunnar kjósi erlendir ferðamenn að eyða minna í hluti eins og fatnað og minjagripi en eyði þess í stað hlutfallslega meira í matvöru og hvers kyns ferðatengda upplifun,“ segir í Hagsjá.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK