Bindiskyldan komin til að vera

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Seðlabankinn telur nauðsynlegt að viðhalda bindiskyldu á hluta innstreymis erlends gjaldeyris enn um sinn. Stefnt er að því að lækka bindihlutfallið í núll svo fljótt sem aðstæður leyfa en Seðlabankinn geti gripið til hennar þegar nauðsyn krefji. 

Þetta kemur fram í nýjasta hefti Peningamála sem var birt í dag. Bindiskyldan var innleidd um mitt ár 2016 og felur í sér að 40% af nýju innflæði erlends gjaldeyris vegna fjárfestingar í skráðum skuldabréfum og víxlum útgefnum í krónum auk hávaxtainnstæðna, verði bundið á vaxtalausum reikningi í Seðlabankanum í eitt ár.

Er yfirlýst markmið að draga úr áhættu sem getur fylgt fjármagnsinnstreymi og stuðla að skilvirkari miðlun peningastefnunnar. Í Peningamálum kemur fram að upptaka bindiskyldunnar hafi skilað tilætluðum árangri í meginatriðum og telur Seðlabankinn að hún sé enn nauðsynleg. 

„Sérstakri bindiskyldu hefur nú verið beitt í nokkuð á annað ár og er nauðsynlegt að svo verði enn um sinn. Skammur tími er síðan fjármagnshöftum var að mestu aflétt og ekki má tefla árangrinum af vel heppnaðri losun þeirra í tvísýnu.“

Tekið er fram að mikilvægt sé að draga ekki úr sérstöku bindiskyldunni nema í áföngum sem taka tillit til aðstæðna. Yrði dregið úr henni of hratt kynni það að raska stöðugleika og grafa undan virkni peningastefnunnar.

„Engu að síður er stefnt að því að lækka bindihlutfallið í núll svo fljótt sem aðstæður leyfa og að bindiskyldan verði að jafnaði ekki virk. Hins vegar hefur Seðlabankinn talið mikilvægt að geta gripið til hennar þegar nauðsyn krefur.“

Unnið er að endurskoðun á tæknilegum grunni sérstöku bindiskyldunnar og undirbúningi tillagna að breytingu á lögum sem varða beitingu hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK