Betri eldsneytissala hækkar afkomuspá

AFP

Olíufélagið Skeljungur hefur hækkað afkomuspá sína fyrir árið 2018 um rúmlega 7% vegna betri afkomu af eldsneytissölu og einskiptishagnaðar.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að áður birt afkomuspá fyrir árið 2018 hafi gert ráð fyrir að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir yrði á bilinu 2.600 til 2.800 milljónir króna. Nú hefur spáin verið hækkuð í 2.800 til 3.000 milljónir. Fjárfestingaspá helst óbreytt í 750 til 850 milljónum króna.

„Helsta ástæða fyrir betri afkomu á fyrsta ársfjórðungi en gert hafði verið ráð fyrir helgast af betri afkomu af eldsneytissölu á Íslandi, í Færeyjum og af alþjóðasölu, auk einskiptishagnaðar upp á 103 milljóna króna vegna uppfærðs eignaverðs á einni af eignum félagsins,“ segir í tilkynningunni. 

Félagið vinnur enn að uppgjöri fyrsta ársfjórðungs og geta því forsendur og aðstæður tekið breytingum og þar af leiðandi getur afkoma félagsins af fjórðungnum, sem og vænt ársafkoma félagsins, orðið frábrugðin núverandi horfum. Félagið mun birta uppgjör fyrsta ársfjórðungs 2018 eftir lokun markaða þriðjudaginn 8. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK