Frakkar á útleið af skammarlista ESB

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron.
Forseti Frakklands, Emmanuel Macron. AFP

Evrópusambandið hefur mælt með því að Frakkland verði tekið af lista yfir ríki ESB sem brjóta gegn reglum um opinberar skuldir. Þetta þykir mikill sigur fyrir Emmanuel Macron, forseta Frakklands, en landið hefur verið á skammarlista ESB í tæpan áratug.

Meðal skilyrða Maastricht-samkomulagsins er að halli á ríkisrekstri sé ekki meiri en 3% af vergri landsframleiðslu (VLF) og hins vegar að skuldir hins opinbera séu ekki meiri en 60% af VLF, eða að skuldahlutfallið stefni nægilega hratt að því marki ef það er hærra en 60%.

Samkvæmt upplýsingum framkvæmdastjórnar ESB nam halli franska ríkisins af fjárlögum 2,6% af VLF þannig að loksins er ríkið komið niður fyrir 3% mark ESB.

Spá framkvæmdastjórnarinnar gerir ráð fyrir því að hallinn verði 2,3% í ár og 2,8% á næsta ári. 

Macron hefur sagt að lykilatriði í að vinna traust annarra leiðtoga ESB-ríkja, sérstaklega kanslara Þýskalands, Angelu Merkel, sé að draga úr fjárlagahallanum, í vegferð hans í átt að endurbótum á evru-samstarfinu.

Frakkar og Spánverjar eru tvö síðustu ríki evru-svæðis, sem eiga enn á hættu að þurfa að greiða sektir vegna slæmrar stöðu ríkissjóðs. Tillaga framkvæmdastjórnarinnar um að taka Frakkland formlega af skrá yfir þau ríki sem eru brotleg verður tekin fyrir á fundi fjármálaráðherra ESB í júlí.

Nú horfa flestir hins vegar til Ítalíu þar sem popúlistar og andstæðingar evrunnar eru að taka við stjórnartaumunum. Þeir hafa meðal annars heitið því að hafa að engu reglur ESB varðandi opinber fjármál, þar á meðal 60% þakið á opinberar skuldir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK