Studdi ekki óbreyttan meirihluta í stjórn VÍS

Helga Hlín Hákonardóttir.
Helga Hlín Hákonardóttir.

Tilnefningarnefnd VÍS leggur það til við hluthafafund sem koma mun saman síðdegis á morgun að í stjórn verði kjörin þau Gestur B. Gestsson, Marta Guðrún Blöndal, Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, Valdimar Svavarsson og Vilhjálmur Egilsson. Með tillögunni er lagt til að núverandi stjórn verði endurkjörin og að þau Marta Guðrún og Vilhálmur, sem Lífeyrissjóður verslunarmanna og Lífeyrissjóðurinn Gildi hvöttu til framboðs, komi ný inn í stjórnina í stað þeirra Helgu Hlínar Hákonardóttur og Jóns Sigurðssonar sem sögðu sig óvænt úr stjórninni í lok október. Helga Hlín sat í tilnefningarnefndinni allt fram til loka dags 11. desember þegar hún sagði sig úr henni. Gerði hún það vegna ágreinings við meirihluta nefndarinnar. Áður hafði Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir sagt sig úr nefndinni sökum þess að hún var sjálf í framboði.

Í tilkynningu frá Helgu Hlín sem hún sendi Morgunblaðinu segir hún að hún hafi ekki verið sammála meirihluta nefndarinnar að öllu leyti þar sem hún hafi ákveðið að tilnefna áfram óbreyttan meirihluta sitjandi stjórnar og að það þýði í raun að nýir stjórnarmenn séu tilnefndir inn í óbreytt ástand sem „minnihluti stjórnar“.

„Ég tilkynnti nefndinni að ég hygðist því skila sératkvæði, sem ég taldi líklegra til að endurspegla heildarhagsmuni hluthafa og félagsins og líkur væru á að sátt næðist um meðal hluthafa.

Þegar þessi afstaða mín lá fyrir í nefndinni tók við atburðarás sem endurspeglar þau átök sem meirihluti stjórnar félagsins fór fyrir þegar hann kom í stjórn í upphafi starfsárs 2017 og aftur við breytingar á stjórn í október síðastliðnum. Meirihluti nefndarinnar vann jafnframt án minnar vitneskju eða aðkomu og því ekki annað í stöðunni en að ég segði mig úr nefndinni.“

Alls buðu sig 10 manns fram til stjórnar en ekki liggur enn fyrir hvort einhverjir þeirra sem ekki hlutu náð fyrir augum tilnefningarnefndarinnar muni draga framboð sín til baka eða ekki.

Tilnefningarnefndin leggur auk þess til að í varastjórn verði kjörin þau Auður Jónsdóttir og Sveinn Friðrik Sveinsson. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK