Hækka verðskrána í annað sinn á rúmu hálfu ári

Verð á mánaðaráskrift hefur hækkað um tæpt 21% frá júnímánuði.
Verð á mánaðaráskrift hefur hækkað um tæpt 21% frá júnímánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Líkamsræktarstöðvar World Class hafa nú hækkað verðskrá sína í annað sinn á rúmu hálfu ári. Viðskiptavinir með ótímabundinn samning greiða nú 8.260 krónur mánaðarlega í stað 7.866 króna áður. 

Verðið var hækkað í 7.866 krónur í júlímánuði. Þá hafði verðið fyrir mánuð áður verið 6.840 krónur. Þegar verðhækkunin varð í júlímánuði tilkynnti World Class sérstaklega um hækkunina á vefsíðu sinni. Slík tilkynning virðist ekki hafa verið birt á vefsíðu stöðvarinnar í þetta sinn.  

Vísir greindi fyrst frá. 

Flestir aðrir liðir einnig hækkað

Verð á mánaðaráskrift hefur því hækkað um tæpt 21% frá júnímánuði. Verð á flestum öðrum liðum í gjaldskrá World Class hefur hækkað um svipað hlutfall. Verð á árskorti í stöðvar World Class hefur hækkað um svipað hlutfall á sama tímabili en það kostar nú 96.590 í eingreiðslu. Í byrjun sumars var það fáanlegt á 79.990 krónur. 

Þegar verðhækkunin varð í sumar sagði Björn Leifsson, stofnandi og einn eigenda World Class á Íslandi, að það hefði verið óhjákvæmilegt fyrir fyrirtækið að hækka verðið. Þá hafði það verið óbreytt frá ársbyrjun 2014. 

90 starfsmönnum World Class var sagt upp í lok desembermánaðar. 

Líkamsræktarstöðvar hafa flestar orðið fyrir verulegu tjóni vegna kórónuveirufaraldursins en þeim hafði verið gert að loka mánuðum saman vegna sóttvarna. Stöðvunum var heimilað að opna með miklum takmörkunum fyrr í mánuðinum, þannig mega stöðvarnar til að mynda einungis bjóða upp á hóptíma. 

Ekki náðist í Björn Leifsson við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK