Sterling strákarnir sektaðir um 50 milljarða

Ljósmynd/Colourbox

Evrópusambandið hefur sektað fjóra stóra banka um samtals 344 milljónir evra, sem jafngildir um 50 milljörðum kr., fyrir ólöglegt samráð í svokölluðum forex-gjaldeyrisviðskiptum.

Um er að ræða bankana Barclays, RBS, HSBC og Credit Suisse. Starfsmenn UBS tóku einnig þátt í þessum viðskiptum en framkvæmdastjórn ESB samþykkti að fella niður sektina eftir að starfsmennirnir stigu sjálfviljugir fram til að aðstoða eftirlitsaðila við rannsókn málsins.

Margrethe Vestager, aðstoðarframkvæmdastjóri framkvæmdastjórnar ESB, segir að bankanir hafi grafið undan trausti fjármálageirans á kostnað evrópskra neytenda og efnahagskerfisins.

Með sektarákvörðunni lýkur þriðja hluta rannsóknar sem hefur staðið yfir frá árinu 2013 en árið 2019 var þegar búið að seka bankana um einn milljarð evra, eða sem samsvarar 146 milljörðum kr.

Margrethe Vestager.
Margrethe Vestager. AFP

Rannsóknin leiddi í ljós að miðlarar sem sjá um erlend gjaldeyrisviðskipti með helstu gjaldmiðla, sem störfuðu fyrir breska og svissneska banka, hafi samræmt sínar aðgerðir.

Framkvæmdastjórn ESB segir að miðlararnir hafi stundum rætt sína á milli til að samræma aðgerðir á spjallsvæðinu á netinu sem kallaðist Sterling Lads, sem vísar í breska gjaldmiðilinn og útleggja mætti sem Sterling strákarnir.

Miðlararnir áttu að vera í samkeppni hver við annan, en þeir samþykktu stundum að halda að sér höndum til að trufla ekki önnur viðskipti með þeim afleiðingum að það skekkti samkeppni á markaði.

Vestager sagði að niðurstaðan sendi skýr skilaboð um að framkvæmdastjórn ESB væri staðráðin í að tryggja heilbrigða samkeppni fjármálageirans sem væri nauðsynleg undirstaða fjárfestingar og vaxtar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK