Origo selur hlut sinn í Tempo fyrir 29 milljarða

Origo hf. seldi í kvöld 40% hlut sinn í Tempo, …
Origo hf. seldi í kvöld 40% hlut sinn í Tempo, en félagið hafði selt meirihluta í félaginu árið 2018. mbl.is/Kristinn Magnússon

Origo hefur selt 40% hlut sinn í Tempo fyrir 29 milljarða, en samkomulag um skuldbindandi kaupsamning náðist í kvöld á milli Origo og Diversis Tempo Holdings II LLC, en það er félag á vegum bandaríska tæknifjárfestingasjóðsins Diversis Capital. Origo hafði áður selt meirihluta sinn í Tempo til bandaríska félagsins árið 2018.

Samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar var virði Tempo í viðskiptunum metið á 600 milljónir Bandaríkjadali, eða sem nemur um 89 milljörðum íslenskra króna. Samkvæmt kaupsamningi fær Origo greitt í reiðufé 195 milljónir dala fyrir hlut sinn, en það nemur um 29 milljörðum. Söluhagnaður Origo vegna viðskiptanna er áætlaður um 156 milljónir dala, eða 23 milljarðar, en þá er tekið tillit til bókfærðs virðis og kostnaðar vegna viðskiptanna.

Í tilkynningunni segir að ljóst sé að salan muni hafa umtalsverð jákvæð áhrif á efnahagsreikning Origo og mun lausafjárstaðan styrkjast þannig að geta til innri og ytri vaxtar verður umtalsverð. Stjórn og framkvæmdastjórn Origo munu vinna að tillögu um ráðstöfun söluandvirðisins sem verður kynnt hluthöfum í framhaldinu. 

„Nú er komið að ánægjulegum tímamótum hjá Origo og Tempo eftir um 15 ára vegferð.  Stórt skref var tekið í nóvember 2018 þegar Origo seldi meirihluta í félaginu til Diversis Capital í þeim tilgangi að fá meðfjárfesta með alþjóðlega reynslu til að hraða vexti félagsins og auka virði fyrir hluthafa Origo. Sú vegferð sem Origo lagði upp með þá hefur að fullu gengið eftir og rúmlega það, og hefur virði Tempo áttfaldast frá því haustið 2018.  Arðsemi Origo af þessum viðskiptum er frábær og hluthafar Origo innleysa hér mikil verðmæti,” er haft eftir Hjalta Þórarinssyni, stjórnarformanni Origo í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK