Uppsagnir hjá Sýn – „Erfiður dagur“

Höfuðstöðvar Sýnar.
Höfuðstöðvar Sýnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórn Sýnar hf. hefur samþykkt nýtt skipulag félagsins sem felur í sér skipulagsbreytingar og mun stöðugildum fækka í dag. Kostnaður vegna starfsloka nemur um 150 milljónum króna. Starfsemi móðurfélagsins verður skipt í tvær kjarnaeiningar, annars vegar Vodafone fjarskipti og hins vegar Fjölmiðlar.

Stoðsvið verða fjögur: Nýsköpun og rekstur, fjármál og stefnumótun, lögfræði og mannauður. Aðrar rekstrareiningar eru dótturfélagið Endor og sérstök rekstrareining utan um innviði, Sýn - Innviðir, að því er kemur fram í tilkynningu Sýnar til Kauphallar Íslands.

Áætla bætta afkomu um 650 milljónir á ári

„Sýn - Innviðir mun halda utan um allar þjónustur, samninga og innviðaeignir samstæðunnar. Vegna aukinnar áherslu á skilvirkni í rekstri mun stöðugildum samstæðunnar fækka í dag. Áætlað er að breytingar á skipulagi, ásamt öðrum rekstraraðgerðum, muni skila sér í bættri afkomu Sýnar sem nemur um 650 milljónum króna á ársgrundvelli. Jákvæðra áhrifa mun fyrst gæta í afkomu fyrsta ársfjórðungs 2023,“ segir í tilkynningunni.

„Til að undirbúa félagið undir frekari sókn verða ráðnir nýir framkvæmdastjórar. Á næstunni verður ráðið í nýtt starf, framkvæmdastjóra Vodafone - Fjarskipta, þar sem áherslan verður m.a. á markaðsmál og framúrskarandi þjónustuupplifun. Hulda Hallgrímsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri nýsköpunar og rekstrar, með áherslu á vöruþróun, rekstur og stafrænar umbreytingar. Þá verður Alda Sigurðardóttir framkvæmdastjóri mannauðs, með sérstaka áherslu á fyrirtækjamenningu til vaxtar, en hún hefur gegnt stöðu mannauðsstjóra Sýnar,“ segir þar einnig. 

Yngvi Halldórsson.
Yngvi Halldórsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Erfiður dagur“

Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar, segir í tilkynningunni að félagið hafi náð góðum tökum  á rekstrinum undanfarin misseri og einblínt á að einfalda ferla. Lækka þurfi rekstrarkostnað og er aðgerðunum núna ætlað að bæta arðsemi félagsins.

„Það fylgja blendnar tilfinningar deginum í dag. Á sama tíma og við fögnum því sérstaklega að fá tvær öflugar konur í framkvæmdastjórn félagsins, þá verður þetta erfiður dagur þar sem við kveðjum kært samstarfsfólk. Ég efa þó ekki að það muni láta að sér kveða á nýjum vettvangi,“ segir Yngvi í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK