Isavia sýknað af bótakröfu vegna útboðs

Landsréttur taldi að vandað hefði verið til forvalsins og jafnræðis …
Landsréttur taldi að vandað hefði verið til forvalsins og jafnræðis gætt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsréttur hefur sýknað Isavia af skaðabótakröfu Drífu ehf. vegna tjóns sem fyrirtækið taldi sig hafa orðið fyrir vegna hagnaðarmissis sem leiddi af ákvörðun Isavia um að semja ekki við Drífu um verslunarrými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í kjölfar útboðs árið 2014. Drífa rekur meðal annars Icewear-verslanirnar.

Landsréttur ómerkti árið 2020 dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem Isavia var sýknað af kröfu Drífu, þar sem rétturinn taldi að héraðsdómari hefði átt að kveðja til sérfróðan meðdómsmann. Málinu var því vísað heim í hérað og hefur Landsréttur nú staðfest niðurstöðu héraðsdóms um sýknu.

Isavia efndi á árinu 2014 til forvals á verslunar- og veitingaþjónustu í Leifsstöð frá og með árinu 2015 undir yfirskriftinni „Viðskiptatækifæri á Keflavíkurflugvelli“. Drífa ehf. tók þátt í forvalinu og gerði tilboð í leigu verslunarrýmis. Drífu var síðar tilkynnt að boði fyrirtækisins hefði ekki verið tekið.

Jafnræðis gætt við mat á tilboðinu

Í úrskurði Landsréttar sem kveðinn var upp á föstudag kemur fram að ósannað væri að Isavia eða nefndarmenn í matsnefnd um útboðið hefðu sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi við mat og meðferð á tilboði Drífu.

Ekki yrði annað ráðið en að vandað hefði verið til forvalsins, forsendur hefðu legið ljósar fyrir í útboðsgögnum, jafnræðis verið gætt og að lögmæt og málefnaleg sjónarmið hefðu ráðið för við mat á tilboðinu.

Við það mat yrði að hafa í huga tilgang Isavia, sem sé að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu flugstöðvarinnar og að Isavia sem rekstraraðila væri heimilt að gera hvers konar samninga við aðra aðila til að ná þeim tilgangi á sem hagkvæmastan hátt. Því yrði að játa Isavia ákveðið svigrúm við mat á því hvaða tilboð og viðskiptahugmyndir falli best að tilgangi félagsins.

Var Drífu ehf. gert að greiða Isavia 2,5 milljónir króna í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK