Sidekick Health tekur þátt í átaki Hvíta hússins

Sæmundur Oddsson, framkvæmdastjóri lækninga og rannsókna hjá Sidekick, og Tryggvi …
Sæmundur Oddsson, framkvæmdastjóri lækninga og rannsókna hjá Sidekick, og Tryggvi Þorgeirsson forstjóri.

Íslenska heilbrigðistæknifyrirtækið Sidekick Health mun taka þátt í að móta bandarískt þjóðarátak gegn krabbameini. Átakið fer fram á vegum Hvíta hússins. Það voru Joe Biden Bandaríkjaforseti og dr. Jill Biden forsetafrú sem tilkynntu nýverið um átakið sem ber heitir The Cancer Moonshot intiative. Sidekick tekur þátt ásamt 15 öðrum fyrirtækjum og samtökum, þar á meðal eru heilbrigðisstofnanir í fremstu röð, sjúklingasamtök, lyfjafyrirtæki og tæknirisar.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að átakið miðar að því að sameina fjölbreytta hagsmunaaðila og frumkvöðla með djúpa þekkingu og reynslu í nýtingu stafrænnar tækni til að bæta árangur í rannsóknum og meðferðum við krabbameini. Auk þess verður leitað leiða til að auka jöfnuð og draga úr fjárhagslegu tjóni sem sjúklingar og fjölskyldur þeirra verða fyrir vegna kostnaðar af heilbrigðisþjónustu.

Markmið The Cancer Moonshot initiative eru meðal annars að lækka dánartíðni af völdum krabbameins um að minnsta kosti helming á næstu 25 árum og bæta líðan einstaklinga og fjölskyldna þeirra sem bæði lifa með og sigrast á krabbameini. Í átakinu er mikil áhersla lögð á að nýta stafræna tækni og nefnist sá hluti átaksins CancerX og hefst í byrjun apríl. CancerX felst í því að efla stafræna nýsköpun til þess leysa áskoranir sem krabbameinssjúklingar, starfsfólk í heilbrigðisþjónustu og vísindamenn standa frammi fyrir.

„Við erum afar stolt af því að taka þátt í CancerX verkefninu,“ segir Tryggvi Þorgeirsson, forstjóri og annar stofnenda Sidekick, í tilkynningunni.

„ Markmið okkar hjá Sidekick er að styðja við og aðstoða þá sem hafa fengið krabbameinsgreiningu, við að taka skref sem hafa jákvæð áhrif á heilsu þeirra og líðan. Að vera hluti af þessu frábæra átaki samræmist markmiðum okkar, að þeir sem berjast við alvarlega sjúkdóma fái bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Það eru mikil forréttindi að hafa verið valin til þess að aðstoða við þetta átak og við hlökkum til að vinna með þessum framúrskarandi fyrirtækjum sem taka þátt, til að gera alvöru breytingar fyrir þá sem kljást við krabbamein.“

Sæmundur Oddsson, framkvæmdastjóri lækninga og rannsókna og annar stofnenda Sidekick tekur í sama streng.

„Þátttöku í CancerX verkefninu fylgir tækifæri til að skrifa söguna. Hópnum er ætlað að skilgreina hvernig er best að styðja við krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra, hvernig á að mæla árangur á læknisfræðilegan hátt og hvernig er best að innleiða stafræn úrræði. Þátttakan byggir á þrotlausri vinnu Sidekick teymisins og samstarfsaðila okkar en margir í teyminu hafa ýmist greinst með krabbamein eða hafa átt nána ástvini sem hafa greinst. Það hvetur okkur áfram og þátttakan er því viss viðurkenning á þeirri þekkingu, hugviti og eldmóð sem er að finna í teyminu. Við erum afar þakklát samstarfsaðilum okkar, sérstaklega starfsfólki Landspítalans og Ljóssins, og einnig sjúklingum á Íslandi sem hafa tekið þátt í rannsóknum okkar.”

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK