„Ég vil dansa, ég vil hlæja, ég vil lifa lífinu!“

Bókin Saga þeirra, saga mín eftir Helgu Guðrúnu Johnson segir …
Bókin Saga þeirra, saga mín eftir Helgu Guðrúnu Johnson segir sögu þriggja ættliða.

Bókin Saga þeirra, sagan mín á án efa eftir að fara vel í íslenska lesendur en hún var að koma út hjá Forlaginu. Helga Guðrún Johnson, fyrrverandi fréttamaður á Stöð 2, er höfundur bókarinnar sem fjallar um þrjá ættliði sem hafa ýmsa fjöruna sopið.

„Þegar Katrín Thorsteinsson giftist Eggerti Briem vorið 1901 og þau taka við búskap í Viðey tengjast auðugar og valdamiklar fjölskyldur. Katrín er sjálfstæð kona sem lætur hjartað ráða för og storkar gildum samfélagsins. Harmræn örlög hennar móta líf dóttur hennar, heimsborgarans Ingibjargar Briem – Stellu, sem festir hvergi rætur,“ segir í texta um bókina.

Í bókinni segir Katrín Stella Briem, sem kölluð er Kanda, sögu sína, móður sinnar og ömmu.

„Líf Köndu einkennist af sviptivindum og skörpum andstæðum. Í gegnum föðurættina tekur hún þátt í allsnægtalífi bresku yfirstéttarinnar en þess á milli fylgir hún móður sinni heimshorna á milli í rótlausri tilveru og stundum sárri fátækt. Þegar líferni Stellu kemur þeim mæðgum á götuna þarf Kanda að rífa sig upp úr örbirgðinni og hefja nýtt líf.“

Brot úr bókinn af blaðsíðu 71-72:

Hún teygir úr sér þar sem hún liggur út af á legubekknum – eins konar sessalón – í lessalnum. Hún hefur greinilega dottað aðeins. Kannski ekkert skrýtið að sótt hafi að henni, hún fór heldur seint í bólið í nótt. Hvernig var líka hægt að slíta sig frá gleðinni og fjörinu í danssalnum? Það á nú betur við hana heldur en þessi endalausa alvara sem virðist elta hana á röndum heima á Fróni.

Hún horfir út um kýraugað á heldur kaldranalegt og úfið Atlantshafið, en það er tæplega hægt að kvarta undan sjólaginu, að minnsta kosti ekki miðað við árstíma. Það er Þorláksmessa árið 1924 og Stella er á leiðinni til New York. Hún verður komin á áfangastað á morgun, aðfangadag. Það verða þó öðruvísi jól, hugsar þessi 22 ára gamla íslenska stúlka sem er aftur á leið til heimsborgarinnar. Í þetta skipti verður hún ekki bara gestur ættingja sinna – nú stendur til að læra eitthvað, helst er hún að velta fyrir sér að nema snyrtifræði. Hún kann sitthvað fyrir sér varðandi krem og smyrsl og langar að læra meira.

Sjálfsvíg móður hennar hefur skilið eftir sig djúp sár sem virðast seint ætla að gróa. Stella skilur ekki enn hvers vegna mamma hennar gat yfirgefið hana á þennan hátt. Hún telur sig þó hafa þroskast nóg á þessum fimm árum sem liðin eru til þess að geta sér til um ástæðurnar. Eitthvert stundarbrjálæði hlýtur að hafa gripið hana því hún hefur áreiðanlega ekki viljað kalla þessa miklu óhamingju yfir börnin sín.

Svipurinn harðnar eilítið þegar henni verður hugsað til föður síns og nýju konunnar hans. Hún kærir sig ekki um þau.

Skyndilega lifnar yfir henni aftur. Hún lítur á armbandsúrið og sér að það líður senn að hádegismat. Og það er von til þess að málsverðurinn verði ekki af lakara taginu, síðasta dag ferðarinnar. Félagsskapurinn er heldur ekki leiðinlegur, svo þetta lítur allt ágætlega út.
Hún ákveður að velta sér ekki lengur upp úr erfiðleikum síðustu missera. Það er nóg komið af óhamingju og sorg. „Ég vil dansa, ég vil hlæja, ég vil lifa lífinu!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál