Tekur 10.000 tíma að verða meistari

Árelía Eydís Guðmundsdóttir.
Árelía Eydís Guðmundsdóttir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Þegar ég var lítil dreymdi mig um að verða óperusöngkona. Ég sá búningana í hillingu og að standa á sviði með þessum karlmannlegu og fallegu söngvurum. Ég lét mig dreyma um að standa á sviði í stóru leikhúsi. Ég var í barnakór og átti ömmu sem var óperusöngkona - það var u.þ.b. það eina sem nærði þennan draum. Söngnám kom ekki til greina og í hreinskilni sagt þá lagði ég ekki það á mig sem þurfti til. Ég var ekki tilbúin  að vinna fyrir skólagjöldum, hvað þá að fara í prufur og ganga á milli staða. Erfiða og leggja á mig fyrir þennan draum kom eiginlega ekki til greina. Það er sagt að það taki 10.000 klukkutíma að verða virkilega góður í einhverju, ég komst varla í 100 og varð þess vegna ekki óperusöngkona,“ segir Árelía Eydís Guðmundsdóttir í sínum nýjasta pistli. 

„Mig langar reglulega að komast í súpergott líkamlegt form en ég hef aldrei verið tilbúin  að leggja það á mig sem þarf til. Maður þarf nefnilega að mæta í ræktina, allt árið, marga klukkutíma og neita sér um þann mat sem ekki situr vel á skrokknum. Súpermódel þurfa að takast á við endalausa höfnun, borða næstum ekki neitt og vera tilbúin að standa í marga klukkutíma veseni (ímyndiði ykkur að standa við Jökulárslón t.d. í marga klukkutíma í sömu stellingu...). Leikarar verða að takast á við að koma sér á framfæri og þola mikla gagnrýni, vinna á kvöldin og um helgar þegar allir aðrir eru í fríi og fara reglulega frá fjölskyldu sinni vegna vinnu. Þeir geta ekki kosið að mæta ekki í vinnu þegar þeim líður illa. Sýningin verður að halda áfram sýningagestir eru búnir að kaupa miða,“ segir hún og heldur áfram:

„Hljómsveitarmeðlimir sem vilja ná árangri í samkeppninni þurfa að æfa sig á hverjum degi og vera tilbúnir að sitja í illa lyktandi rútum á „túrum". Allt fyrir þessar mínútur sem þeir eru á sviði. Forstjórar þurfa oftast að sætta sig við félagslega einangrun frá vinnuhópnum því þeir geta ekki verið vinir allra lengur þegar þeir eru með stjórnartaumana. Forstjórar taka mikla ábyrgð og vinna mjög mikið, mörg kvöld og helgar. Þurfa oft að ferðast mikið og sitja marga leiðinlega fundi. Íþróttamenn þurfa æfa sig á hverjum degi, líka þegar vont er veður eða þegar þeim er illt alls staðar, svei mér þá, ég þekki ekki afreksíþróttamenn sem ekki er oftast illt einhvers staðar. 

Til þess að takast á við þennan sársauka og þjáningu til að verða góður í einhverju er mikilvægt að gera upp við sig fyrir hverju fólk er tilbúin að fórna? Ástríða hjálpar, eldmóður kyndir undir og samhjálp er góð en á endanum er þetta alltaf samt í manns eigin hendi. Líka þegar það er vont veður og mann langar ekki.

Núna þegar ég horfi á góða óperusöngvara dáist ég að seiglunni og úthaldinu. Tíu þúsund undirbúningsklukkustundunum sem sjást ekki á sýningunni. Tárunum, svitanum og blóðinu sem fór í að gera líkama þeirra að þeim dásemdar hljóðfærum sem gleðja okkur hin. Það er alveg sama hvað fólk gerir vel, frábærlega vel - þannig gleður það okkur hin.“

Árelía Eydís.
Árelía Eydís. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál