Ekki vera sveitt að þóknast öðrum

Árelía Eydís Guðmundsdóttir.
Árelía Eydís Guðmundsdóttir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„„Æltar þú ekki að fara að vinna fljótlega?“ var nýbökuð móðir spurð í minni návist nýlega. Mamman var ósköp þreytuleg með hin litlu börnin hlaupandi í kringum sig. Hún varð ennþá þreytulegri á svip. Það er eins og við séum öll með einhverja þrælabumbu sem við hlýðum á og hlýðum án þess að hugsa það lengra. Hvaða vit er í því að eiga lítil börn og þurfa að hlusta á að það sé nauðsynlegt að fara á vinnumarkaðinn - akkúrat þá? Er það ekki tíminn til að sinna og hlúa að því sem mikilvægast er í þessu lífi?“ segir Árelía Eydís Guðmundsdóttir, dósent við Viðskiptadeild Háskóla Íslands, í sínum nýjasta pistli. 

Skilaboð sem við tökum inn, sem mikilvæg, einhvern tímann á lífsleiðinni eru til dæmis:

Það er heilsusamlegt og nauðsynlegt að vera grannur. Stórhættulegt að hafa aukahold utan á sér og sýnir að þú ert löt/latur eða viljalaus. Hvaðan koma þessi skilaboð? Frá lyfaframleiðandanum sem styrkti þá hugmynd að BMI væri heilbrigðisstuðull? Þessi þrælasláttur gerir okkur ginnkeypt fyrir hinum og þessum misgáfulegum lausnum. Frískasta og heilbrigðasta fólkið er sátt í eigin skinni alveg sama hvað kílóin eru mörg. Það að vera laus við að láta segja sér hvað maður á að borða er frelsi frá þrælabumbunni.

Að nauðsynlegt sé að ná árangri á vinnumarkaði (meika það) áður en maður verður þrítugur, eða fertugur! Segir hver? Það eru ótal margir sem ná miklum árangri á vinnumarkað eftir fimmtugt þegar önnur stór verkefni lífsins eru léttari - eins og barnauppeldi.

Að það sé nauðsynlegt að vera alltaf jákvæður og glaður. Þeir sem þjást fá oft þau skilaboð að þeir eigi að „líta á björtu hliðina á málinu“ helst strax. Lífið er stundum svo erfitt og þá er mun betra að fá stuðning í erfiðleikunum heldur en að fá þau skilaðboð að það sé óeðlilegt að vera leiður eða dapur.

Að það sé sérstakt fólk sem sé geðveikt. Bull og vitleysa, við verðum öll einhvern tímann geðveik, bara mismunandi mikið og sumir þurfa meiri aðstoð en aðrir.

Að það sé nauðsynlegt að vera alltaf að. Bara alltaf. Helgar eigi að vera fylltar dagskrá. Sumum finnst það gott en öðrum ekki. Stundum er best að gera ekki neitt, bara ekki neitt.

Að vísindi séu alltaf sönn. Við þurfum ekki annað en að fylgjast með vísindalegri umræðu í einhvern tíma til að vita að nýjar rannsóknir kollvarpa stöðugt gömlum. Gagnrýnin hugsun er mikilvæg. Við eigum að halda í heilbrigða skynsemi.

Að halda að þegar maður sýnir fólki lítilsvirðingu, á netinu eða annars staðar, þá stækki maður sjálfan sig. Það eltir alltaf skottið á sér - alltaf.

Að trúa því að frægð, peningar, völd og eignir séu ákjósanlegasti mælikvarði á hamingju. Það hefur ekkert með hamingju að gera. Allt of margir höndla það illa og verða græðginni að bráð. Innri sátt er eftirsóknaverðust.

Nú er ég hætt í bili - gæti haldið áfram. En það er líka stórhættulegt að trúa því að aðventan, jólin og hátíðir séu betri ef maður er sveittur við að þóknast öðrum. Aldeilis ekki, það er bara þrælabumban - ekki ætla ég að dansa eftir henni þessa aðventuna. Bara njóta, njóta og njóta mín og annarra. Ekki síst annarra því sambönd okkar við aðra eru besta fjárfestingin.

Árelía Eydís Guðmundsdóttir.
Árelía Eydís Guðmundsdóttir. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál