Svanhildur komin á fullt swing

„Þetta var gert fyrir jólin en situr bara fast í …
„Þetta var gert fyrir jólin en situr bara fast í hárinu sem við áttum aldrei von á..“ Mynd: Einkasafn

Svanhildur Jakobsdóttir söng sig inn í hjörtu Íslendinga fyrir margt löngu en hún hóf feril sinn fyrir alvöru upp úr 1966 á skemmtistaðnum Lídó. 

Laugardaginn 21. mars ætlar Svanhildur að flytja nokkur af sínum allra vinsælustu lögum á kaffi Rósenberg en þar má búast við ljúfri stemningu.

„Já, ætli það megi ekki segja að ég hafi byrjað fyrir alvöru þarna upp úr 1966 með Sextett Ólafs Gauks,“ segir Svanhildur þegar blaðamaður slær á þráðinn. „Ég var mjög ung þegar ég byrjaði í þessum bransa með eiginmanni mínum,“ segir hún en óhætt er að fullyrða að Svanhildur eldist með eindæmum vel. „Enda er ég alveg orðin tuttugu og níu ára núna,“ segir hún og hlær. 

Svanhildur á lítinn hund sem hún kallar Prins.
Svanhildur á lítinn hund sem hún kallar Prins. Mynd: Úr safni sjónvarps.

Í útvarpi síðan 1987

„Lídó var geysilega vinsæll staður hér áður fyrr en þar fóru fram fjölbreytt skemmtikvöld þar sem hljómsveitir léku fyrir dansi, yfirleitt bara til klukkan eitt. Þetta var á þeim tíma þegar allt byrjaði fyrr og hætti fyrr,“ segir Svanhildur sem hefur um árabil stýrt útvarpsþáttum á Rás 1. 

„Ég byrjaði þar árið 1987 og hef stjórnað þáttum sem hafa haft hin ýmsu nöfn síðan. Núna er ég með þátt sem heitir Óskastundin og fer í loftið alla föstudagsmorgna klukkan 10.13,“ segir Svanhildur og bætir við að einhvernveginn hafi þetta æxlast þannig hjá henni að hún hefur alla tíð starfað í skemmtanabransanum og við fjölmiðla. 

„Reyndar var ég líka flugfreyja um tíma þar til skemmtanabransinn tók við en svo lauk ég stúdentsprófi frá MH þegar ég var komin yfir þrítugt og get montað mig af því að þar dúxaði ég í íslenskunni sem hefur síðan nýst mér vel við starf mitt hjá útvarpinu.“

Svanhildur söng á Vibrato klúbbnum um jólin við góðar undirtektir.
Svanhildur söng á Vibrato klúbbnum um jólin við góðar undirtektir. Mynd: Einkasafn

Með fjólubláar strípur

Svanhildur ferðast mikið til Bandaríkjanna en dóttir hennar Anna Mjöll syngur reglulega á skemmtistaðnum Vibrato í Beverly Hills og víðar og sonur hennar, Andri Gaukur Ólafsson, er  skurðlæknir við Banner-spítalann sem er rétt utan við Phoenix í Arizona. 

„Það má segja að ég sé voðalega heppin að þurfa stundum að fara til Ameríku,“ segir Svanhildur og hlær. „Ég er yfirleitt í svona mánuð í senn og finnst óskaplega gott að komast þangað í sólina.“

Í síðustu ferð sinni til Bandaríkjanna skruppu þær mæðgur saman til Las Vegas þar sem Svanhildur fór í hárgreiðslu og kom út með fjólubláar strípur. Blaðamaður hefur orð á því að flestar íslenskar konur yfir fertugu væru tæplega svo djarfar en Svanhildur gefur lítið fyrir það. 

„Þetta var tillaga hárgreiðslumannsins og ég ákvað að slá til. Manni finnst þetta alveg eðlilegt þegar maður er þarna úti í sólinni. Þetta var gert fyrir jólin en situr bara fast í hárinu sem við áttum aldrei von á,“ segir Svanhildur og skellir upp úr. 

Þau voru vinsæl og vissu af því.
Þau voru vinsæl og vissu af því. Mynd: Úr einkasafni

Hollywood og ástarmálin

Spurð að því hvort hún hafi ekki tekið lagið með dóttur sinni á tónlistarsenunni í Hollywood játar Svanhildur því.

„Jú, hún hefur alveg dregið mig upp á senu þarna. Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt, hvort sem er að fá sér fjólubláar strípur, blátt naglalakk eða syngja á klúbb í Hollywood. Maður lifir bara einu sinni,“ segir Svanhildur. 

Að lokum er ekki úr vegi að spyrja þessa fallegu og hæfileikaríku konu hvort hún sé komin með kærasta í Hollywood.

„Nei, ég engan kærasta! Hvorki í Hollywood né annars staðar í Ameríku, ekki á Íslandi og bara hvergi,“ segir hún hlæjandi. „Ég á hinsvegar lítinn chihuahua-hund sem heitir Prins og mér finnst voðalega gott að hafa hann nálægt mér,“ segir söng -og fjölmiðlakonan Svanhildur Jakobsdóttir að lokum. 

Með Svanhildi í bandinu eru þeir Reynir Sigurðsson, Guðmundur Steingrímsson (Papa Jazz), Edwin Kaabeer og Helgi E. Kristjánsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál