Heyrðu karla tala saman og kýldu á það

Edda Hermannsdóttir.
Edda Hermannsdóttir.

Edda Hermannsdóttir samskiptastjóri hjá Íslandsbanka er höfundur og útgefandi bókarinnar Forystuþjóð ásamt Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur. Hún segir mikilvægt að fólk tali upphátt um jafnréttismál. 

Hvernig kviknaði hugmyndin að bókinni?

„Við Ragnhildur Steinunn sátum á fundi þar sem við heyrðum karlmenn vera að ræða jafnréttismál og þeirra hugmyndir. Okkur fannst umræðan hafa verið einsleit og vildum koma öðrum skoðunum á framfæri. Eins höfum við báðar umgengist kraftmiklar konur sem hafa sterkar skoðanir á þessum málum og deilt reynslu sinni til yngri kvenna en aldrei opinberlega. Eins með karlana, þarna eru karlmenn sem segja frá sinni reynslu og árangri í fyrsta sinn opinberlega. Okkur fannst við þurfa að eiga þetta skrásett svo fleiri gætu lært af reynslu þessara viðmælenda og svo hægt væri að ræða jafnréttismál á annan hátt. Það leið því ekki á löngu frá því hugmyndin kviknaði og við vorum komnar á fulla ferð í skrifin enda mikið áhugamál hjá okkur báðum,“ segir Edda. 

Hvað gerir okkur að forystuþjóð að þínu mati?

„Það sem mér finnst einkenna okkur í þessum málum er hversu metnaðarfull við erum. Ísland trónir efst á lista þegar kemur að jafnréttismálum en samt er gríðarlega mikil ólga í stórum hópi sem vill gera enn betur. Það er spennandi fyrir okkur að vera fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir og sýna hvernig bæði kyn geta sótt fram og það séu engar hindranir.“

Hvað þarf fólk að hafa til að bera til að skara fram úr?

„Mér finnst það fólk sem nær árangri eiga það sameiginlegt að þekkja eigin styrkleika. Það horfir ekki á verkefni sem hindranir og lætur þannig ekkert stöðva sig. Það þarf líka að leyfa sér að hugsa stórt og láta sig dreyma, annað væri leiðinlegt. Þegar fólk eldist og þroskast lærir það líka betur að standa með sjálfu sér og sínum gildum. Það er mjög mikilvægt og þannig uppsker fólk eins og það sáir. Síðan á maður að setja sér það sem reglu að styðja við gott fólk í kringum sig í þeirra verkum og þá mun maður fá þann stuðning á móti sem hjálpar manni mikið í starfi og einkalífi.“

Þekkir þú einhvern sem hefur skarað fram úr sem hefur bara unnið frá níu til fimm?

„Mér dettur helst í hug viðmælendur í bókinni sem hafa allir skarað fram úr á sínum sviðum. Þar ber Vigdís Finnbogadóttir auðvitað af og er okkur konum mikil fyrirmynd. Kona sem ætlaði sér ekkert endilega að verða forseti en breytti heimsmyndinni með tilkomu sinni.“                        

Hvað kom þér á óvart þegar þið skrifuðuð bókina?

„Það kom mér á óvart hversu ólíkar hugmyndir við höfum um jafnrétti og hvernig því verður náð. Það var líka áhugavert að sjá hvaða hindranir fólk hefur tekist á við og ég held að við flest getum samsamað okkur við þær reynslusögur og lært af þeim. Mér fannst hver og ein saga hrista vel upp í mér og fékk mig til að endurhugsa jafnréttisbaráttuna.“

Ertu með eitthvað einfalt trix sem gæti hjálpað fólki sem þráir að ná langt?            

„Mér finnst alltaf mikilvægt að setja sér markmið, til lengri og styttri tíma, og skipuleggja sig vel. Þá nær maður að afkasta meira og vinnur sig alltaf nær markmiðinu. Síðan gengur planið ekkert endilega upp og þá skiptir máli að læra af mistökum og gera þau ekki aftur. Síðan finnst mér alltaf gott að hugsa „hvað er það versta sem getur gerst“ þegar ég tek að mér ný og stór verkefni. Niðurstaðan er þá alltaf sú að láta slag standa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál