Bótox eða brokkólí?

Þorbjörg Hafsteinsdóttir.
Þorbjörg Hafsteinsdóttir. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Þorbjörg Hafsteindóttir næringarþerapisti segir það mun auðveldara en margir haldi að snúa við blaðinu og taka upp hollari lífshætti.

„Það er alltaf rétti tíminn til að breyta um lífsstíl, hverfa frá því sem ekki virkar og fara inn á nýjar, hollari og skemmtilegri brautir,“ segir Þorbjörg Hafsteinsdóttir, hjúkrunarfræðingur og næringarþerapisti. „Upphaf árs er þó góður tími til að snúa við blaðinu því þá fáum við tækifæri til að líta um öxl og vega og meta hvar við stöndum. Heilsan er það dýrmætasta sem við eigum en við áttum okkur kannski ekki á því fyrr en hún fer að gefa sig, oft langt fyrir aldur fram. Þá sést svart á hvítu hvernig við höfum ofboðið líkama og sál, meira og minna meðvitað.

Auðvitað hefur hver og einn alltaf val. Þú getur ákveðið að vera þar sem þú ert núna og haldið áfram að eldast alltof hratt; verða feitari, stirðari og latari. Það er óumflýjanlegt ef þú ert á vondum stað en ákveður að breyta engu. Það kostar talsvert að sóa lífinu þannig, en ef þú ert til í að borga reikninginn þá er það vitaskuld þín ákvörðun. Þetta er þín lífssýn og hún á rétt á sér, alveg eins og mín.“

Vafasöm mantra

Aðspurð kveðst Þorbjörg ekki fylgjandi því að fólk breyti um lífsstíl með heilsuátaki. „Getum við ekki verið sammála um að taka þetta orð, átak, út úr málinu þegar það er notað í þeim skilningi að hlúa að sér? Það kyndir undir þann misskilning að það sé barátta og stríð og svakalega erfitt að bæta heilsuna og hugsa vel um sig.“

Hún segir það vissulega geta verið áskorun fyrir suma að losa sig úr úreltu mynstri, breyta matarvenjum og byrja að hreyfa sig. „Ég er þó með skilaboð til þeirra sem hafa hingað til kosið að gera ekkert í sínum málum og finnst það eitt erfitt að lesa þessar línur: Það krefst mikillar orku að gera ekki neitt. Margir hafa í huganum samið sína eigin sögu, sem gæti til dæmis heitið Hundrað ástæður fyrir því að breyta engu, og þar við situr. Fullyrðingarnar verða að vafasamri möntru sem lifað er eftir.“

Leiðin út úr neikvæðu mynstri er í raun sáraeinföld, að mati Þorbjargar. „Skrifaðu sögu þína upp á nýtt og breyttu fullyrðingunum yfir í ég kann, ég get, ég vil. Snúðu við blaðinu og komdu þér á óvart. Það er enginn að ætlast til þess að það sé gert á nokkrum dögum. Ég skrifaði bókina 10 árum yngri á 10 vikum til að sýna hvernig hægt er að koma sér í gott form á tveimur og hálfum mánuði. Það hættir auðvitað ekkert þar en það tekur um það bil 10 vikur að sættast við breytingarnar, venjast nýjum mat, losna við sykurfíknina og svo framvegis.“

Orka og jafnvægi

Hún breytti sjálf um lífsstíl og talar því af eigin reynslu. „Það er langt síðan að ég tók ákvörðun um að halda fullri orku, vera áhugasöm um lífið og lifa því vakandi og meðvituð. Ég fjalla einmitt um þetta í nýjustu bókinni minni, 9 leiðir til lífsorku, hvað þú ert í rauninni fær um að öðlast ef og þegar þú velur að borða rétt og hreyfa þig. Þú uppskerð svo margt; orku, meðvitund, hugrekki, skýra hugsun og jafnvægi.

Ég er ekki að tala um að fólk gjörbreyti yfir í einhverjar framandlegar fæðutegundir sem það ekki þekkir, heldur velji gott hráefni og borði hollan mat í hæfilegum skömmtum. Sjálf er ég klárlega próteintýpa og verð að fá minn skammt af fiski eða góðu kjöti á hverjum degi. Ég borða jafnframt mikið af hráfæði og bý mér til ávaxta- og grænmetisdjús oft í viku.“

Þorbjörg er búsett í Kaupmannahöfn, þar sem hún starfar sem næringarþerapisti og lífsstílsráðgjafi. Hún segir margt hafa áunnist hérlendis á sviði heilsueflingar, þó að árangurinn mætti vera betri. „Ég vildi að ég hefði töfrasprota og gæti galdrað fram löngun hjá íslensku þjóðinni til að hlúa betur að sér og þykja vænt um sig. Þá á ég ekki við eigingjarna sjálfselsku heldur að fólk finni til væntumþykju og þakklætis fyrir líkama sinn og lífið. Ef þetta er til staðar þá leitumst við ósjálfrátt við að næra okkur á alvöru mat, góðum og næringarríkum.

Það er auðvitað margt í neysluvenjum og matarræði okkar Íslendinga sem við þurfum að laga. Það er til dæmis hægt að skemmta sér og njóta nærveru fjölskyldu og vina án þess að sulla í áfengi. Það má vel horfa á góða kvikmynd án þess að borða 1/2 líter af ís og fulla skál af nammi. Það er hægt að drekka vatn með matnum í staðinn fyrir gos. Það má skipta þessu öllu út fyrir annað og betra.“

Bótox eða brokkolí

Þorbjörg er með mörg járn í eldinum; flytur fyrirlestra, heldur námskeið bæði erlendis og hérlendis og skrifar vinsælar bækur um hollan mat og heilsu. „Það er búið að vera ansi mikið að gera hjá mér síðustu sjö árin. Ég er núna að leggja lokahönd á nýja bók sem fjallar um húðina, meðferðir og mat sem yngir og fegrar og kemur út í Danmörku í vor. Þá byrja ég strax á þeirri næstu, en ég get ekki tjáð mig um efni hennar að svo stöddu.

Fyrsta bókin mín, 10 árum yngri á 10 vikum, kom út í Danmörku 2008 og hefur verið þýdd á fimm tungumál. Matur sem yngir og eflir er framhald hennar og geymir uppskriftir að matnum sem ég mæli með í fyrstu bókinni. Í Safaríkt líf er að finna þægilegar og fljótlegar uppskriftir að söfum og þeytingum og í bókinni frá síðasta ári, 9 leiðir til lífsorku, kynni ég til sögunnar lífsorkuhringinn og deili uppskriftum að frábærum, heilsusamlegum mat.“

Hún segir margt spennandi vera á döfinni, meðal annars tengt sjónvarpi. „Síðastliðið haust var ég upptekin við skemmtilegt verkefni fyrir danska sjónvarpið DR1. Ég var þar í hlutverki stjórnanda og næringar- og lífsráðgjafa í þáttum sem hétu í upphafi Botox eller brokkoli, en af því að ekki fékkst leyfi til að nota Botox-heitið var nafninu breytt í Kål eller kanyle, sem gæti útlagst á íslensku Kál eða nál.

Þættirnir voru byggðir á grunnhugmyndum bókarinnar 10 árum yngri á 10 vikum og öðrum bókum mínum, þar sem valdir voru 12 þátttakendur. Helmingur þeirra fór til lýtalæknis, gekkst undir hnífinn og fékk botox-meðferð. Hinir sex studdust við mína ráðgjöf um matarræði og hreyfingu og fengu náttúrulegar andlitsmeðferðir. Að 10 vikum liðnum komst dómnefnd að þeirri niðurstöðu að náttúrulega leiðin hefði skilað jafngóðum árangri og fegrunaraðgerðir hvað útlitið varðaði, auk þess sem mitt fólk reyndist vera mun ánægðara með lífið og tilveruna eftir breytingarnar.

Framundan er ýmislegt sem þó er of snemmt að segja frá, en ég mun jafnvel taka að mér að stjórna nýjum sjónvarpsþáttum á svipuðum nótum. Ég er full af orku og ætla að ferðast um heiminn og sækja mér innblástur; ég nýt þess að miðla þekkingu minni til annarra, það er eitt af því sem gefur lífi mínu gildi.“

Spergilkáls- og myntuþeytingur

fyrir 1-2

1 dl soja- eða hrísmjólk

2 dl ananas- eða appelsínusafi

2 þurrkaðar, steinlausar döðlur

2 hnífsoddar vanilluduft

20 blöð af ferskri myntu

hálfur banani (eða 1 lítill)

150 g frosið spergilkál

1 msk kaldpressuð hörfræolía

2 msk mysupróteinduft

Allt sett í öflugan blandara og látið ganga í 1-2 mínútur.

Fiskisúpa með bláskel

fyrir 4

8 hörpuskeljar

8 skötuselskinnar

500 g bláskel, hreinsuð og

skrúbbuð

1 fínsöxuð fennika

1 hokkaido-grasker, flysjað, fræhreinsað og smátt skorið

1 lítill ljós laukur, smátt saxaður

2 lárviðarlauf

1 msk fennikufræ

1 hvítlauksrif, smátt saxað

1 msk gróft salt

nýmalaður pipar

4 msk epla- eða hvítvínsedik

ólífuolía til steikingar

Fyrst er gott að fleygja þeim skeljum sem ekki eru lokaðar. Brúnaðu lauk, hvítlauk, fenniku, fennikufræ, salt, pipar og grasker í olíunni ásamt bláskelinni í nokkrar mínútur.

Taktu skeljarnar upp úr pottinum og leggðu til hliðar. Settu lárviðarlaufin út í ásamt edikinu og sjóddu niður í 10 mínútur. Veiddu lárviðarlaufin upp úr.

Settu grænmetið í blandara og láttu ganga þar til úr verður flauelsmjúk súpa. Helltu í pottinn og smakkaðu til með salti, pipar og sítrónusafa ef vill. Bættu við skötuselskinnum og hörpuskel og láttu malla í nokkrar mínútur. Settu blá-skelina síðast saman við og láttu sjóða í þrjár mínútur til viðbótar.

Berðu súpuna fram með aioli og ferskum kryddjurtum eftir smekk.

Aioli

2 eggjarauður

1 dl ólífuolía eða repjuolía

4 pressaðir hvítlauksgeirar

örlítill sítrónusafi

salt og pipar

cayenne-pipar, ef vill

Settu eggjarauður í skál. Þeyttu með handþeytara og helltu olíunni saman við í mjórri bunu (þú getur líka notað minnstu skálina í hrærivélinni).

Þegar þú ert komin með góða og ekki alltof þykka majónessósu bætirðu við sítrónusafa, salti, pipar og pressuðum hvítlauk.

Þorbjörg Hafsteinsdóttir.
Þorbjörg Hafsteinsdóttir.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál