Klukkustundaflot á við fjögurra tíma svefn

Samflotið í Seltjarnarneslauginni hefur nú staðið yfir í ár. Það hófst með skemmtilegu sunnudagsmorgunfloti á Bæjarhátíð Seltjarnarness þar sem tónlist var leidd ofan í laugina. Margir mættu og upplifðu töfrandi morgunstund. Á sunnudaginn kemur verður leikurinn endurtekinn og verður efnt til Sigur rósar-Samflotst í Seltjarnarneslauginni í samvinnu við Systrasamlagið og Sundlaug Seltjarnarness.

Tónlist af diskum Sigur-rósar verður leidd ofan í laugina og munu gestir geta flotið um og notið og átt róandi slökunarstund frá kl. 10.00 og 11.00 þennan morgun. Lánshettur verða í boði fyrir þá sem vilja prófa.

Guðrún Kristjánsdóttir einn af eigendum Systrasamlagsins segir að flotið hafi haft mjög jákvæð áhrifa á líkamlega og andlega heilsu.

„Ég hef stundað hugleiðslu í mörg ár en með þessari viðbót næ ég eins og að fara miklu fyrr inn á dýpið og kemst stundum jafnvel snertingu við eitthvað alveg stórfenglegt, sem ég kann ekki skil á. Enda svosem ekki til orð yfir allt. En eins og með flest nær maður árangri með ástundun. Margir sækjast eftir djúpri slökun og ná henni sannarlega, á meðan aðrir nota eigin hugleiðslutækni til að fara jafnvel enn dýpra,“ segir Guðrún og bætir við:

„Það er alveg dagsatt sem sagt er að klukkustundarflot jafnast á við fjögurra tíma svefn. Sjálf hef ég verið á linnulausri keyrslu undanfarið eitt og hálft ár og hefði aldrei getað lifað það af nema að fara að fljóta reglulega. Þá er eins ég nái að endurnæra mig og að halda orkunni jafnri og góðri. Ég held svei mér þá að bilið milli hugmynda og framkvæmda hafi styst í mínu tilfelli, í jákvæðasta og besta skilningi. Ég finn að ég sakna þess ef ég næ ekki að fljóta að minnsta kosti 1 x í viku.“

Guðrún segir að flot virki kannski ekki merkileg athöfn en hún sé þó stórmerkileg þegar öllu er á botninn hvolft.

„Ég hef aldrei hitt manneskju sem ekki hefur upplifað eitthvað alveg nýtt við það að fljóta. Þar spilar auðvitað vatnið stóru rulluna. Það hefur löngum verið talað um þá miklu heilun sem felst í vatni. Það er eins og að vera okkar í vatni dragi úr streitu. Það meikar auðvitað mikinn sens af þeirri einföldu ástæðu að vandmál flestra í dag er nýrnahettuþreyta, sökum mikils álags og streitu í daglega lífinu. Nýrun stjórna jú vatnsbúskap líkamans. En með því að hugleiða eða slaka á í vatni fá nýrun kærkomna hvíld og endurnæringu. Það dregur úr seytingu kortisóls, eða streituhormóna. Það er bara einföld efnafræði sem ég hef sannarlega upplifað á eigin skinni.“

Unnur Valdís Kristjánsdóttir er hönnuður flothettunar sem notuð er við samflotið.

„Að öllu þessu sögðu, er ég þeirrar skoðunar að hönnun Unnar Valdísar Kristjánsdóttur á hinni íslensku Flothettu sé mikil snilld, sprottin upp úr okkar miklu vatnsauðlegð. Tíminn á bara eftir að leiða það betur í ljós.

Vísindamenn hafa tengt jákvæðar niðurstöður af floti beint þeta (theta) heilabylgjunum en það er hið ómótstæðilega notalega ástand sem skapast rétt áður en við svífum inn í svefninn. Þegar alger ró færist yfir. Við getum líka þekkt þessa tilfinningu milli svefns og vöku á því að stundum kippist fólk við sem stafar að öllum líkindum af því að ákveðinn spennuþröskuldur rofnar. Þeta heilabylgjur merkja samkvæmt mælingum að lítil rafvirkni er í heila. Það sem er þó öllu forvitnilegra er að þeta heilabylgjur mælast gjarnan í vökuástandi munka sem eiga margra ára hugleiðsluþjálfun að baki. Í þeta ástandi er líkt og við öðlumst skýra mynd af öllu í kringum okkur og áreynslulaus skipulagsvinna getur átt sér stað. Við það að leyfa sér að fljóta reglulega má því segja að undirvitundin fljóti upp á yfirborið og nýtist okkur í daglega lífi.

Ein af stærstu gjöfum flotsins er þú getur náð stöðugu þeta ástandi á skömmum tíma. Það er því mjög líklegt að flot nýtist sérlega vel þeim sem eru í skapandi vinnu, t.d. eins og hönnuðum, rithöfundum, myndlistarmönnum, tónlistarmönnum, arkitektum og öðrum sem þurfa að tengja hugmyndir raunveruleikanum,“ segir Guðrún.

Guðrún Kristjánsdóttir og Jóhanna Kristjánsdóttir reka Systrasamlagið.
Guðrún Kristjánsdóttir og Jóhanna Kristjánsdóttir reka Systrasamlagið. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál