Er hamborgari ofurfæða?

Jóna Ósk Pétursdóttir.
Jóna Ósk Pétursdóttir. mbl.is/Rósa Braga

„Við heyrum oft hugtakið ofurkona og er þá átt við konu sem virðist geta gert þetta „allt“. Með þessu „öllu“ er líklega átt við að konan eigi börn, sé á framabraut, haldi sér í ofurformi, sé ofurmamma og auðvitað frábær gestgjafi og ofurkokkur. Hún getur allt – sem sagt algjör „ofurkona“,“ segir Jóna Ósk Pétursdóttir í sínum nýjasta pistli og bætir við: 

„En í dag heyrum við líka æ oftar hugtakið ofurfæða. Þetta er ákaflega vinsælt hugtak og því eðlilegt að velta fyrir sér hvað sé ofurfæða og hvort slík fæða sé raunverulega til? Og verð ég til dæmis ofurkona ef ég borða ofurfæðu? Stjáni blái gúffaði í sig spínati og fékk ofurkraft svo kannski það sé málið. Og hvað með allar ofurhetjurnar úr blöðum og bíómyndum, borða þær líka svokallaða ofurfæðu? Reyndar ekki því svo virðist sem flestar þessar ofurhetjur séu á allt annarri línu en Stjáni Blái. Leðurblökumaðurinn elskar til dæmis nachos, Súperman vill helst fá nautakjötskássu, uppáhaldsmatur Wolverine eru hamborgarar og skjaldbökurnar „The Ninja Turtles“ borða helst pizzur. Skyldi þetta kannski vera flokkað sem ofurfæða?  

Fæðuval ofurhetjanna telst víst ekki til hollustuvarnings á meðan t.d. bláber, lax, túrmerik, möndlur, brokkolí, lárpera og margt fleira er flokkað sem ofurfæða. En hver er það sem ákveður hvað er ofurfæða? Eftir því sem ég kemst næst er enginn sem heldur utan um það. Einhvern veginn hefur þetta þróast og er hugtakið víst ansi óljóst því svo virðist vera að hver sem er geti kallað sinn varning ofurfæðu. Samkvæmt því get ég líka kallað allt það sem ég borða ofurfæðu. Markaðsmenn og framleiðendur eru snjallir og vita upp á hár hvað þeir eru að gera. Ef þeir kynna og selja vöru sína sem ofurfæðu eru meiri líkur á vinsældum, og þar af leiðandi meiri sölu. Og við neytendur erum allt of oft auðtrúa og gleypum við þessu. Skyldi engan undra – hver vill svo sem ekki vera ofurkona (eða ofurmaður) á ofurfæði?“

Jóna Ósk segir að erlendir næringafræðingar forðist þetta hugtak og vilji ekki nota það í ljósi þess hversu óskýrt og óljóst það sé.

„Staðreyndin er sú að engar reglur eða nákvæmar leiðbeiningar eru til um það hvernig skuli skilgreina ákveðna fæðutegund sem ofurfæðu. Öllum er því frjálst að nota hugtakið eins og þeim hentar.   

Í upphafi var hugtakið notað til að skilgreina ólíkar fæðutegundir, héðan og þaðan úr heiminum, sem voru taldar einstaklega ríkar af ákveðnum næringarefnum. Smám saman hefur þetta hugtak þó þróast út í hálfgerða ofnotkun. Ég er nokkuð viss um að ég verði ekki ofurkona af því að neyta svokallaðs ofurfæðis og auk þess finnst mér ég ekki vita nákvæmlega hvað telst til þessa flokks og hvað ekki. Þess vegna er ég að velta því fyrir mér hvort það megi ekki bara kalla alla fæðu sem inniheldur engin aukefni ofurfæðu. Eða hvort við ættum yfirhöfuð nokkuð að vera að nota þetta hugtak.

Svona matargöt eins og ég setja bragð ofar öllu og þess vegna borða ég líka stundum eins og ofurhetja. Og hamborgarar eru líka ofurfæða. Eða er það ekki annars?“

mbl.is/Rósa Braga
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál