Drottning frá Íslandi mætti með maskara í ómskoðun

Bjarnheiður Hannesdóttir er komin til Indlands í stofnfrumumeðferð.
Bjarnheiður Hannesdóttir er komin til Indlands í stofnfrumumeðferð. Ljósmynd/heidahannesar.com

Bjarnheiður Hannesdóttir, eða Heiða eins og hún er kölluð, og Snorri Hreiðarsson eru komin til Indlands þar sem hún er að hefja stofnfrumumeðferð. Drottningin frá Íslandi mætti náttúrlega ekki ómáluð í fyrstu ómskoðunina og þurfti að bregðast við hið snarasta.

„Heiða átti að fara í dag í allskonar rannsóknir en fyrst var hún skoðuð af iðju- og sjúkraþjálfurum og svo vorum við keyrð á spítala ekkert svo langt frá og þar fór hún í segulómun, ómskoðun og röngten,“ segir Snorri í bloggfærslu á heidahannesar.com.

„Heiða er vel höfðinu stærri en flestir og ég hálfgerður risi í þeirra augum. Í segulómskoðuninni má ekki vera með neitt skart eða járnhluti á sér en stuttu eftir að græjan var sett í gang kom læknirinn og stoppaði græjuna og spurði hvort það væri ekki öruggt að Heiða væri ekki með neitt á sér sem truflaði því það var eitthvað sem truflaði myndartökuna og þá kom í ljós að maskarinn sem drottningin frá Íslandi var með truflaði allt dæmið,“ segir Snorri og bætir því við að þetta hafi þeim fundist dálítið fyndið.

„Nú þurfti að fjarlægja maskarann af henni svo hægt væri að halda áfram. Hún Heiða mín er nú ekki vön að fara út án þess að vera allavega aðeins tilhöfð, það þekkið þið sem þekkið hana, ekki einu sinni í segulómskoðun,“ segir hann.

Snorri segir að hávaðinn í tækinu hafi verið rosalegur og Heiða hafi kippst við þegar græjan fór í gang. Hún þurfti að vera með leðurleppa fyrir eyrunum svo heyrnin myndi ekki skaðast. Á meðan á þessu stóð sat Snorri úti í horni með eldgamlar Peltor-heyrnahlífar í stuttbuxum og bol í skítakulda sem var þarna inni á spítalanum.

„Næst var það ómskoðun á hjartanu sem gekk vel og hjartað virðist vera í góðu standi og svo var það röngten af hryggnum. Þegar niður var komið þurfti Heiða að pissa og ég sagði þeim að hún þyrfti á klósettið og við þyrftum hjólastól því hún var á börum. Já, já ekkert mál, svo er Heiðu rennt inn í eitthvert herbergi á börunum og ég fattaði ekki alveg hvað var í gangi, svo kom hjúkrunarkona til hennar og fór að setja upp hanska og meðhöndla einhverja slöngu. Halló, halló róum okkur smá, hvað er í gangi hér? segi ég við konuna og þá fattaði ég að hún ætlaði að setja upp þvaglegg til að tæma blöðruna,“ segir hann og bætti við að hann myndi hjálpa henni á salernið.

„Við þurftum aðeins að bíða eftir bílstjóranum og fylla út allskonar pappíra og þá kom gamall maður til mín, starfsmaður, og sagði einhvern veginn svona „copa cop id“ ég skildi nú ekki hvað veslings maðurinn var að segja og hann endurtók þetta aftur og aftur og þá fattaði ég að hann þurfti copy of ID eða ljósrit af skilríkjum. Ég reif upp passana okkar og sagði að hann yrði sjálfur að taka afrit af pössunum og hann glápti á mig eins og ég væri alveg snargalinn og þá hló maðurinn í afgreiðslunni og sagði að hann hefði verið að bjóða mér kaffibolla eða „a cup of coffie“.“

Þegar þau komu loksins heim eftir þennan annasama dag fengu þau sér að borða og hittu börnin sín þrjú á Skype.

„Það var æðislegt að sjá þau og heyra, þau eru svo frábær. Fyrsti dagurinn búinn og á morgun verða meiri rannsóknir.“

Bjarnheiður Hannesdóttir áður en hún fór í hjartastopp, fékk heilaskaða …
Bjarnheiður Hannesdóttir áður en hún fór í hjartastopp, fékk heilaskaða og endaði í hjólastól.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál