Hættur að borða í Burberry-litunum

Svavar Örn.
Svavar Örn.

Útvarpsstjarnan og hárgreiðslumeistarinn Svavar Örn segist eiga í svolitlu basli með að halda sig inni á beinu brautinni þegar kemur að mataræði. Hann viti það ósköp vel að hann eigi ekki að borða mat í Burberry-litunum en það geti verið erfitt á köflum. Þess vegna er hann á leiðinni á námskeið hjá Þorbjörgu Hafsteinsdóttur í þriðja sinn. Námskeiðið Ljómandi höfðar til þeirra sem eru með meltinguna í ólagi og fyrir þá sem eru kannski með örlítið of útblásinn maga, fyrir þá sem eru þreyttir og latir, fyrir þá sem eru með þurra húð og fyrir þá sem eru með hormóna í ójafnvægi.

„Ég er ekki að fara í þriðja sinn á þetta námskeið vegna þess að ég taki svo illa eftir eða af því Þorbjörg sé svo óskýr. Hún er bara svo stórkostleg eða eiginlega eins og mín AA-samtök. Ég á í vandamálum með mat og sykur. Auðvitað veit ég alveg hvað ég á að borða og hvað ekki. Ég veit líka alveg hvað gerist ef ég drekk brennivín og reyki, en samt geri ég það. Þess vegna er svo gott að fara á námskeið hjá Þorbjörgu því hún hvetur mig áfram,“ segir Svavar Örn. 

Hann segist finna mjög mikinn mun á andlegri og líkamlegri heilsu þegar hann fylgir ráðum Þorbjargar. 

„Ég lít ekki út fyrir að vera miðaldra þegar ég fer að hennar ráðum. Ég lít betur út og það er auðveldra fyrir mig að vera inni á beinu brautinni. Svo læri ég alltaf eitthvað nýtt. Hún kennir manni hvað maður á að gera til að minnka sykurlöngunina,“ segir hann. 

Svavar Örn segir að Þorbjörg sé mjög góð í að útskýra hlutina á íslensku. „Ef þú borðar bara beige-litaðan mat þá verður þú þunglyndur,“ segir Svavar Örn og hlær og bætir við að það sé alveg bannað að borða í Burberry´s-litunum. 

Hann hefur heldur enga þolinmæði til að setja matvörur í bleyti og láta eitthvað spíra. Hann vilji bara venjulegan mat og það góða við Þorbjörgu er að hún vill að hann borði fisk, kjöt, smjör og rjóma – ekki bara chia-fræ. 

„Ég nenni ekki einhverju kjaftæði. Ég sé það vel á myndum hvað það fer mér vel að vera á mataræði Þorbjargar. Fyrir sirka ári síðan var ég á námskeiði hjá henni og ég hef bara sjaldan litið betur út en þá. En svo er það bara þannig hjá okkur ofætunum að það fer alltaf að halla undan fæti hjá okkur. Mér finnst nefnilega ekki bara gott að borða heldur líka alveg rosalega skemmtilegt. Ég játa það líka að ég hef alveg farið á önnur námskeið en það er bara þannig að ef ég þarf að láta eitthvað liggja í bleyti yfir nótt þá dett ég út og gefst strax upp,“ segir Svavar Örn. Námskeiðið byrjar á miðvikudaginn og er hann orðinn mjög spenntur að mæta.

Svavar Örn á helst ekki að borða beige-litaðan mat eða …
Svavar Örn á helst ekki að borða beige-litaðan mat eða mat í Burberry-litunum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál