Brjóstamjólk stýrir heilsufari út ævina

Birna Ásbjörnsdóttir.
Birna Ásbjörnsdóttir.

„Þarmaflóran samanstendur af trilljónum örvera sem lifa í meltingarvegi okkar og inniheldur a.m.k. 1000 ólíkar tegundir af þekktum bakteríum. Þessar bakteríur búa yfir ríflega 3 miljónum gena sem eru 150 sinnum fleiri en okkar eigin gen. Þarmaflóran vegur um 2 kg í meðaleinstaklingi og einn þriðji þessara baktería er svipaður í okkur öllum meðan tveir þriðju eru sérsniðnir að hverjum og einum. Það má því segja að þarmaflóran okkar sé eins konar persónuskilríki (1),“ segir Birna Ásbjörnsdóttir í sínum nýjasta pistli: 

AF HVERJU er þarmaflóran svona mikilvæg?

Mikilvægur þáttur þarmaflórunnar er að viðhalda heilbrigði þarmanna og verja okkur gegn öðrum óvelkomnum örverum sem geta gert okkur mein. Í raun skipar þarmaflóran stóran sess í ónæmiskerfi okkar með því að vera ákveðin hindrun eða tálmi fyrir þær óvelkomnu örverur sem komast í meltingarveginn og hindrar því útbreiðslu þeirra um líkamann (2,3).

Nýjustu rannsóknir benda til þess að fjölbreytileiki og fjölhæfni þarmaflórunnar jafnist á við heilt líffæri. En þetta líffæri er „áunnið“ ef svo má að orði komast, þar sem við fæðumst nánast án þarmaflóru. Fóstur í móðurkviði er með fáar tegundir af bakteríum í meltingarveginum, en strax í fæðingunni fáum við mikinn fjölda af bakteríum sem búa um sig í meltingarveginum til frambúðar (4).

HVENÆR byrjar þarmaflóran að dafna?

Í fæðingunni fara bakteríur frá móður (leggöngum, endaþarmi, húð, brjóstum) og úr umhverfinu (heimafæðing/spítali) um munn barnsins og vaxa síðan og dafna í meltingarvegi þess. Næringin sem við fáum og umhverfið sem við dveljum í ræður því síðan hvernig þessar bakteríur vaxa og dafna og eru fyrstu 2-3 árin þar mikilvægust. Rannsóknir sýna fram á mun á þarmaflóru barna sem fá brjóstamjólk eða þurrmjólk (5). Flóran sem myndast á þessum fyrstu árum hefur mikið að segja um heilsufar okkar út ævina og bendir margt til þess að ýmsa sjúkdóma á efri árum megi rekja til röskunar á þarmaflóru á unga aldri (6).

HVERNIG þróast þarmaflóran?

Þarmaflóran er að þróast og dafna í okkur alla ævi, frá fæðingu til efri ára. Ólíkir umhverfisþættir hafa áhrif á hver útkoman verður. Upp til hópa hafa aldraðir einstaklingar allt aðra flóru en þeir yngri (7). Í raun má segja að meginþorri heilbrigðra einstaklinga hafi svipaða flóru en umhverfisþættir hafa þó áhrif á þróun þarmaflórunnar. Sem dæmi má nefna að Japanar geta melt sjávargróður/þara betur en aðrir.

Flóran getur líka raskast eða skaðast (dysbiosis). Ástæður geta verið margar, t.d. bólgusjúkdómar í þörmum, ofnæmi, offita eða sykursýki (6). Einnig getur notkun ákveðinna lyfja, og þá helst sýklalyfja, skaðað heilbrigða þarmaflóru (8).

Margar rannsóknir benda til þess að góðir gerlar til inntöku (probiotics) og ákveðin efni í fæðunni (prebiotics) geti styrkt og hlúð að þarmaflórunni. Þessir góðu gerlar (probiotics) finnast einnig í gerjuðum mat eins og súrkáli, jógúrti, kefir og kombucha (9).

ÞARMAFLÓRAN og bólgur

Rannsóknir hafa leitt í ljós að ákveðnir genaþættir, umhverfisþættir (þ.m.t. sýkingar) og röskun á örveruflóru þarmanna (dysbiosis) hafa áhrif á ónæmiskerfið og þar með þróun sjálfsónæmissjúkdóma (10,11).  Sjálfsónæmi fer ört vaxandi og eru þekktir yfir 80 sjálfsónæmissjúkdómar. Ekki er vitað með vissu hvað veldur sjálfsónæmi. Ákveðnir genaþættir, umhverfisþættir og mataræði eiga hlut að máli samkvæmt rannsóknum (12). Liðagigt, Crohn´s, MS og sykursýki I eru dæmi um sjálfsónæmissjúkdóma. Nýgengi/tíðni þessara sjúkdóma fer vaxandi og hefur National Institute of Health (NIH) áætlað að um 23,5 miljónir Ameríkana þjáist af sjálfsónæmissjúkdómum (13,14). American Autoimmune Related Diseases Association (AARDA) áætlar að um 50 milljónir manna séu haldnar sjálfsónæmi af einhverju tagi (15).

AÐ lokum

Þarmaflóran spilar lykilhlutverk í lífi okkar og hefur mjög mikið um það að segja hvernig heilsufari okkar er háttað, andlega og líkamlega, og hvort við þróum með okkur bólgur og/eða sjálfsónæmissjúkdóma.

Birna heldur námskeið um meltingarveginn þriðjudaginn 10. janúar kl. 19:00.

Nánar um námskeiðið hér

Copyright @ Jörth 2008-2017

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál