Flestir koma léttari heim

Hópurinn æfði sig í höfuðstöðu.
Hópurinn æfði sig í höfuðstöðu.

Sólveig Þórarinsdóttir, jógakennari og eigandi jógastöðvarinnar Sólir, fór með hóp af Íslendingum í jógaferð til Taílands í janúar. Hún segir að það sé næsti bær við himnaríki að stunda jóga á ströndinni í nokkra klukkutíma á dag. 

Ólöf María jógakennari gerir jóga á ströndinni.
Ólöf María jógakennari gerir jóga á ströndinni.

„Sólir fóru í fyrstu skipulögðu jógaferðina í janúar 2016 í samstarfi við Kexland en við höfðum bæði fundið fyrir áhuga hjá iðkendum okkar eftir því að komast í skipulagða ferð auk þess sem ég hafði alltaf séð fyrir mér að kynna þessa paradís fyrir sem flestum. Við hjá Sólum höfum mikla ástríðu fyrir jóga og heilbrigðu líferni og strax og við lögðum af stað við að skapa þann jógavettvang sem Sólir eru þá vissum við að við vildum bjóða upp á einstakar jógaferðir sem væru til þess fallnar að endurnæra líkama og sál en mér hafði þótt vera takmarkað framboð á slíkum ferðum,“ segir Sólveig.

Sólveig kenndi jóga í ferðinni ásamt öðrum jógakennara. Einnig hafa erlendir gestakennarar verið hluti af prógrammi ferðarinnar. Hún segir að gestakennararnir séu allt kennarar sem hún hafi unnið með áður og segir það nauðsynlegt til að hafa fjölbreytileikann sem mestan. Þegar ég spyr Sólveigu hvernig dagarnir hafi verið á Taílandi segir hún að allir dagar hafi byrjað á tveggja klukkustunda jógaæfingu við sólarupprás eða klukkan sjö á morgnana.

„Æfingarnar hefjast alltaf á hugleiðslu og stuttri vinnustofu þar sem við dýpkum þekkinguna á nokkrum sviðum jógafræðanna svo sem öndunaræfingar, posture clinic og kynning á ayurveda. Í kjölfarið er 90 mínútna tími þar sem æfðar hinar ýmsu jógategundir eins og hot yoga, yin yoga og vinyasa yoga.

Við erum í fullu fæði hérna í The Love Kitchen en þess á milli fer fólk á barinn og fær sér kókoshnetur og aðra heilsudrykki. Þetta er samt sem áður jógafrí þannig að fólk ræður sér alveg sjálft en við bjóðum upp á létta og valkvæða skipulagða dagskrá. Flestir eru að nýta sér þær kjöraðstæður sem eru hér og fara í aðra jógatíma eða pilates eða nota líkamsræktaraðstöðuna ásamt okkar tímum. Sundlaugin, gufubaðið og spa-aðstaðan leikur einnig gríðarlega stórt hlutverk í deginum þar sem fólk fer í nudd og hefur aðgang að ógrynni af detox, slökunar og heilandi meðferðum,“ segir hún.

Sólveig segir að jóga geri fólki mjög gott og að þeir sem fóru með í ferðina hafi upplifað algert himnaríki.

„Ég hef þá einföldu trú að ef fleiri myndu iðka jóga þá væri heimurinn betri staður til að vera á. Við erum stöðugt að leita í ytra umhverfinu að einhvers konar lífsfyllingu þegar hún er innra með okkur. Með því að hefja daginn á jógaæfingu er búið að leggja línuna fyrir daginn, við verðum orkumeiri, jákvæðari, opnari en jafnframt einbeitt. Fólk er einfaldlega að komast nær sinni hæstu tíðni,“ segir hún.

Er öðruvísi að iðka jóga á ströndinni en inni í líkamsræktarstöð?

„Já, það er engin spurning, þetta hefur alltaf verið mikil upplifun og einn af þeim þáttum sem standa upp úr í ferðunum okkar. Kraftarnir í umhverfinu eru svo margbrotnir að þeir láta engan ósnortinn. Að vera í flæðarmálinu við sólarupprás á tropical-eyju eitt og sér er magnað og það er fátt sem toppar að gera jóga við þessar aðstæður,“ segir hún.

Voru allir á „cleanse“-mataræði í ferðinni eða var það misjafnt eftir hverjum og einum?

„Hótelið sem við erum í samstarfi við er með þeim bestu jóga-, heilsu- og detox-hótelum í Taílandi. Á hótelinu er veitingastaðurinn The Love Kitchen þar sem við erum í fullu fæði en þar er boðið upp á eitthvað fyrir alla. Þar er hægt að fá detox-prógramm eða grænmetis- og vegan-fæði sem og hefðbundið fæði en umfram allt hreina fæðu. Það er alltaf misjafnt hvað fólk gerir í þessum efnum en allir finna mikinn mun á sér.“

Kom fólk léttara heim?

„Í flestum tilfellum er fólk að missa 1-3 kg á viku í þessum aðstæðum eða umbreyta hlutföllum líkamans til hins betra. Hægt er að fá ítarleg próf á staðnum og ráðgjöf en það er skemmtilegt að sjá breytingar fólks á þessum skamma tíma,“ segir hún.

Hvað stendur upp úr úr ferðinni?

„Það er svo ótalmargt en það er ákveðinn stígandi í skipulaginu hjá okkur þar sem nýjar upplifanir taka við. Það má auðvitað nefna SUP eða Paddle Boarding Yoga og bátsferð í National Marina Park þar sem er snorklað, farið á kajak og borðað á afskekktri eyju með eyjaskeggjum. En það er að heyra á fólki að vellíðanin, þ.e. aukið heilbrigði og orka, sé ómetanleg og tengslamyndunin sem verður í góðum félagsskap fylgi þeim héðan og aftur heim.“

Þar sem 2017 er nýhafið er ekki úr vegi að spyrja Sólveigu hvernig 2017 verði hjá henni.

„Þetta ár byrjar af krafti hjá okkur og það er mikið um að vera í Sólum. Við erum í stækkunarhugleiðingum þar sem við önnum ekki lengur eftirspurn. En við erum með fjölmarga viðburði skipulagða. Við erum að byrja með 4 vikna jógaáskorun í Sólum allan febrúar í tilefni af meistaramánuði og Leo Cosendai kemur til landsins og verður með tónheilun sem er okkar framlag til Friðsældar í febrúar hátíðinni. Á tveggja ára afmæli Sólna fáum við hinn heimsþekkta Dice til að fagna með okkur. Þegar ég kem heim eftir mánuð í Asíu þá fer ég fljótlega aftur út að skoða aðstæður í Austurríki en við erum að undirbúa samstarf með GB ferðum (skíða- og jógaferðir). Svo erum við að fá góða nágranna en Grandi 101, ný crossfit-stöð er að opna við hliðina á okkur og verðum við einnig í samstarfi. Það eru alltaf þreifingar í gangi vegna stærri verkefna en það er of snemmt að segja til um þau eins og er. Við Gunnlaugur Guðmundsson stjörnuspekingur og rithöfundur erum svo að vinna að bók sem við ætlum að gefa út í haust og fylgja eftir með fyrirlestrarröðum og app-útgáfu en þessi vinna stendur hjarta mínu sérstaklega nærri,“ segir Sólveig.

Hópurinn tók með sér flotgræjur svo hægt væri að fljóta.
Hópurinn tók með sér flotgræjur svo hægt væri að fljóta.
Hópurinn fór á matreiðslunámskeið.
Hópurinn fór á matreiðslunámskeið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál