Dvaldi í munkaklaustri í janúar

Ragnar Árni Ágústsson læknanemi og tónlistarmaður segir að líf sitt …
Ragnar Árni Ágústsson læknanemi og tónlistarmaður segir að líf sitt í munkaklaustrinu sem hann dvaldi á í janúar hafi breytt honum. Ljósmynd/Saga Sig

Ragnar Árni Ágústsson læknanemi og tónlistarmaður hugsar vel um heilsuna. Hann dvaldi í munkaklaustri í janúar og segir að það hafi verið ótrúleg upplifun sem hafi breytt mörgu. 

Hvernig hugsar þú um heilsuna?

„Á hverjum degi reyni ég að hugsa um líkama, huga, sál og hjarta. Ef allir þessir þættir eru í jafnvægi þá líður mér vel. Þegar ég segi jafnvægi þá meina ég, að ég geti tekið á móti bæði ljósi og myrkri með opnum örmum. Því lífið fer með okkur í báðar áttir. Það er millivegurinn sem skiptir máli. Hér er eitt dæmi: Það kemur nýr dagur. Yfir þann daginn rækta ég hugann með því að fara í skólann eða lesa bók, fyrir líkamann fer ég í ræktina, spila eða sem tónlist fyrir hjartað og hugleiði svo fyrir sálina. Þá fer ég mjög glaður og þakklátur að sofa.“

Hvernig er hreyfingu hjá þér háttað?

„Fyrir mér er hreyfing inn og út eða eldur og vatn. Á ensku væri það „internal“ og „external“. Fyrir út stunda ég rússneskar ketilböllur sem er styrktarþjálfun með lóð og fyrir inn stunda ég Qi gong eða jóga. Ég er mikið að stunda Qi gong þessa daganna. Ég var í shaolin munkaklaustri í janúar og það gjörbreytti sýn minni á Qi gong og innri andlega iðkun. Fyrir þá sem hafa áhuga á að vita meira um Qi Gong þá verð ég að kenna það í Sólum jógastöðinni næsta sumar.“

Hversu oft æfir þú í viku og hversu lengi í senn?

„Þessa daganna er æfingarútínan mín svona: 3x viku ketilbjöllur, 2x í viku verkefni sem ég fékk í munkaklaustrinu. Ég hef haldið áfram að fylgja morgunnrútínunni sem við gerðum í klaustrinu. Byrja daginn á morgungöngutúr, geri svo Qi gong og enda svo á hugleiðslu og kaldri sturtu. Um helgar geri ég það sem kallar á mig, þá er frjáls tími og þá leik ég mér.“

Hvernig nærðu hámarksráangri í ræktinni?

„Allt er einfalt. Mættu reglulega, ekki of oft og heldur ekki of sjaldan. Vertu með góðan þjálfara og hittu skemmtilegt fólk. Hafðu líka gaman að hreyfingunni. Eins og einhver sagði: Það er ekki spurning um að finna besta þjálfunar prógrammið heldur það sem þú helst í yfir langan tíma.“

Nú ertu að læra læknisfræði. Hvernig sérðu fyrir þér að sameina læknisfræðina við heilsupælingar þínar í framtíðinni?  

„Þó svo læknar búi yfir miklum fróðleik og hafi lesið margar bækur um líkamann og kunni allt um það hvernig hann virkar þá eru læknar oft ekki heilbrigðari en hver annar. Þetta sýnir okkur svo vel hversu lítils virði þekking er ef hún er ekki „put in to practice“. Einnig kennir þetta okkur hversu auðvelt það sé að týnast í frumskógi þekkingarinnar og flækja einföldustu hluti eins og til dæmis að hreyfa sig. Nú er ég bara að taka dæmi um lækna, ekki misskilja að ég sé að segja að allir læknar séu ekki heilbrigðir. Læknar eru yndislegir. Það sem ég er að reyna að gera er að skoða sem flestar hliðar á lækningum eða heilbrigði hvort sem það eru okkar vestrænu aðferðir, shamanismi, kínverskar lækningar eða hvað sem er. Þetta er allt svo spennandi. Svo einn daginn get ég kannski sameinað þessa þekkingu og gert eitthvað til að hjálpa fólki.“

Ragnar Árni Ágústsson.
Ragnar Árni Ágústsson. Ljósmynd/Saga Sig

Nú glíma margir við ofþyngd. Hvað telur þú að fólk þurfi að gera til að snúa vörn í sókn?

„Fólk þarf að hugsa um manneskjuna sem heild. Það er ekki nóg að mæta 5x í viku í ræktina ef heilinn á þér er eins og skopparakringla. Þú verður að stíga eitt skref til baka og horfa víðar. Þetta helst allt í hendur. Það sem ég myndi gera væri að hjálpa fólki að setja inn einfalda hluti inn í sitt daglega líf. Kenna fólki að setja athygli sína inn á við og vera meira til staðar.“

Hver finnst þér vera rokkstjarna heilsugeirans í dag?

„Tim Ferriss, Dave Asprey, Alberto Villoldo, Mantak Chia, Wim Hof, Pavel tsatsouline, Dr. Yang, hugleiðslu og Qi gong  kennarinn minn Heng Yi eða munkar almennt.“

Þessa dagana er Ragnar að vinna í því að fá Tim Ferris til Íslands. 

„Tim Ferriss er frábær í því að fá fólk sem hefur skarað frammúr á mismunandi sviðum í viðtal hjá sér (The Tim Ferriss show podcast) og rannsaka þessa litlu hluti sem það hefur sameiginlegt í daglegu lífi. Hvað það borðar, hvernig það hreyfir sig, hvernig það byrjar daginn, hversu mikið það sefur og svo framvegis. Ég er mikill áhugamaður um daglegar rútínur fólks. Ég stofnaði feisbúkk grúbbu um nýju bókina hans og ef við fáum nógu marga í hana þá kemur hann til Íslands og heldur fyrirlestur og svarar spurningum,“ segir Ragnar. 

Hvað heillar þig við hann? „Hann er ofboðslega góður í að aðgreina aðalatriði frá aukaatriðum og tekur sjálfan sig ekki of alvarlega.“

Skarast heilsugeirinn ekkert á við læknisfræðina?

„Það sem við læknanemar erum að læra í læknisfræði er að lækna sjúkdóma. Við erum ekki beint að læra um hreyfingu, mataræði, öndun eða hugleiðslu. Þetta eru tveir ólíkir hlutir. Sá fróðleikur sem læknar búa yfir er mjög breiður og skemmtilegur. Við fáum sýn yfir allskonar vísindagreinar eins og efnafræði, lífeðlisfræði, bakteríufræði, lyfjafræði, lífefnafræði, meinafræði, líffræði, eðlisfræði og svo framvegis. Eftir þennan lærdóm getur læknirinn myndað sýna eigin skoðun á einhverju tiltekni efni með breiðan og góðan bakgrunn. Öll þessi þekking er samt sem áður innan vísinda. Vísindin eru bara ein sýn á heiminn af mörgum.“

Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir í lífinu?

„Gleyma mér í góðu flæði í tónlist sem flytjandi eða áheyrandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál