Kvaddi besta vin sinn (sem var kókið)

Anna Einarsdóttir var búin að fá ógeð á sjálfri sér, eins og hún segir sjálf frá, og var orðin dauðhrædd um heilsu sína. Þá var hún komin vel yfir 100 kíló. 

Anna, sem starfar í eldhúsinu í Grunnskóla Þorlákshafnar og sem frístundaleiðbeinandi, segir að hún hafi aldrei viljað horfast í augu við vigtina. Þegar ég spyr hana hvað hún hafi verið þung þegar hún ákvað að taka á sínum málum játar hún að það sé stórt skref fyrir hana að segja frá því.

„Ég fór aldrei á vigt því ég vildi ekki sjá töluna á vigtinni, en svo ákvað ég að taka líf mitt í gegn og fór á vigtina og ég bara grenjaði því ég vissi að ég væri þung en ekki alveg svona þung. Ég hef ekki sagt neinum hvað ég var orðin þung þannig að hérna er ég að opinbera það fyrir alþjóð að vigtin hafi sýnt 139,6 kg þegar ég steig á hana. Í dag er ég komin niður í 99,3 kg,“ segir hún.

Anna segist hafa þurft að gera það upp við sig að hún ætlaði að breyta lífsstíl sínum til frambúðar, þetta væri ekki enn einn megrunarkúrinn.

„Ég byrjaði á því að taka mataræðið í gegn. Ég játa alveg að það var drulluerfitt að fá sér ekki tvo lítra af gosi á dag og fjóra snakkpoka plús allt annað sem ég lét ofan í mig á venjulegum degi,“ segir hún.

Anna breytti um lífsstíl 15. júlí 2016. Hún segir að það mikilvægasta í þessu öllu hafi verið að breyta mataræðinu.

„Ég léttist um 35 kg bara með því að breyta mataræði mínu. Í fyrstu steig ég ekki inn í líkamsræktarsal. Ég vildi gera þetta rólega og á mínum hraða,“ segir hún.

Hvað borðarðu á hverjum degi?

„Ég byrja alla morgna á að fá mér fatburner frá Leanbody og hafragraut, svo er það rosalega misjafnt hvað ég borða í morgunkaffi, stundum er það grísk jógúrt með eplum, flatkaka með hangikjöti eða heilsubúst, svo er ég svo svakalega heppin að ég vinn í skóla og borða þar í hádeginu og þar fær ég mér alltaf salat þar sem við höfum flottan salatbar þar, en ef það er fiskur þá fæ ég mér fisk og salat. Annars borða ég eiginlega allt og reyni að hafa fæðuna eins hreina og ég get. Á kvöldin fæ ég mér kjúlla, sætar og grænmeti svo dæmi sé tekið,“ segir hún.

Þótt lífsstílsbreyting Önnu hafi staðið yfir í meira en ár þá er frekar stutt síðan hún fór að hreyfa sig eitthvað af viti.

„Ég er bara tiltölulega nýbyrjuð að hreyfa mig. Ég fer í ræktina á bretti og tek svo efri og neðri hluta til skiptis. Ég er frekar nýbúin að kaupa mér hjól og er mjög dugleg að fara út að hjóla með átta ára gömlum syni mínum,“ segir hún.

Hvernig hefur líf þitt breyst við að léttast svona? „Það hefur bara allt breyst. Ég var að glíma við þunglyndi og kvíða. Ég fór í starfsendurhæfingu til að vinna í andlegu hliðinni og núna er það líkamlega hliðin. Síðan ég byrjaði hef ég ekki fengið eitt kvíðakast og þunglyndið er eiginlega yfirstaðið. Þannig að allt hefur breyst til hins betra. Auk þess hef ég miklu betra sjálfstraust,“ segir hún.

Þegar Anna er spurð út í áhugamál sín segist hún hafa mestan áhuga á góðum mat og útiveru.

Hvað hefur þú gert þegar lífið hefur orðið óyfirstíganlegt? „Í dag horfi ég í spegill og segi þú ert komin þetta langt á þínu ferðalagi, og þú ert ekki að fara stoppa á miðri leið, og það sem hjálpar mér mjög mikið er að sjá fyrir og eftir myndir af mér og líka af öðrum. Það bara gefur mér svo mikið. Svo fékk ég fullt af verkfærum þegar ég fór í starfsendurhæfingu sem ég nota og hefur reynst vel,“ segir hún.

Þegar þú horfir til baka. Hvað hefur verið erfiðast?

„Erfiðast var að kveðja besta vin minn sem var kókið, ég átti til óopnaða kókflösku inni í ískáp og ég opnaði hana og hellti í vaskinn og ég hreinlega grét. En ég hef staðið mig og hef ekki fengið mér gos allan þennan tíma,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál