Hefur sjaldan verið í betra formi

Ellý Ármannsdóttir.
Ellý Ármannsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ellý Ármannsdóttir ákvað að taka heilsuna í sínar hendur, hætta að borða það sem er ekki gott fyrir hana og fara að æfa sex daga vikunnar. Árangurinn lét ekki á sér standa. 

Hvað gerir þú til að lifa heilsusamlegra lífi?

„Ég hugleiði daglega og reyni allt hvað ég get til að vera meðvituð um hvað ég set ofan í mig. Ég vel félagsskapinn vandlega, tala við Guð, þakka fyrir allt sem heimurinn færir mér og hreyfi mig sex daga vikunnar.  Svo læt ég áfengi algjörlega eiga sig.“

Hvers vegna skiptir heilsan þig máli?

„Hún skiptir öllu máli fyrir mig. Hún er undirstaðan fyrir hamingjuríkri velsæld og vellíðan.“

Tekur þú einhver vítamín eða fæðubótarefni?

„Já ég tek lýsi, omega og mjólkursýrugerlana frá Abel Probi Mage LP299V®. Þeir hafa gjörbreytt öllu fyrir mig. Annars held ég mig alfarið frá unnu próteini, Amino eða slíku rusli. Læknir ráðlagði mér að sleppa því þegar ég fékk ber í brjóstið sem fjarlægt var fyrir nokkrum árum.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvað borðar þú á venjulegum degi?

„Ég byrja hvern morgun með dásamlegu kaffi með möndlumjólk út í. Upp úr klukkan 10 fæ ég mér ávöxt eða chia-graut. Hádegið er alltaf eins; Fresco-kjúklingasalat. Ég elska staðinn og tek hann fram fyrir allt annað ef [ég] mögulega get en síðan ég byrjaði að borða daglega salatið á Fresco byrjaði líkami minn að renna í sitt rétta form. Magnað fyrirbæri. Seinnipart fæ ég mér epli eða banana. Kvöldmatur er kjúklingur, fiskur eða steik. Fiskbúðin Hafið hefur haldið mér við efnið þegar kemur að fiskréttum. Þar er úrvalið svo mikið og alltaf eitthvað sem gleður kroppinn úr sjónum. Ég legg mikla áherslu á að drekka mikið vatn yfir daginn. Ef mig langar í eitthvað sætt á kvöldin þá sker ég til dæmis niður appelsínur og epli en það er besta snakkið. Svo þykir mér líka voðalega gott að frysta ber og borða þau ísköld,“ segir hún. 

Ertu hætt að borða eitthvað?

„Sykur já, hvítt hveiti og skyndifæði. Þegar ég henti ruslfæðinu út breyttist allt. Líkami minn blómstrar.“

Hvað borðar þú um helgar?

„Steik er efst á lista um helgar. Annars eru helgarnar mjög svipaðar og virku dagarnir. Kjúklingur sem ég kaupi tilbúinn í Nettó er skotheldur til að mynda en ég er ekki með spennandi eldhúsaðstöðu þannig að ég er ekki að elda mikið þessa dagana.“

Hvers vegna finnst þér skipta máli að vera í góðu formi?

„Það er þessi tæra vellíðan sem því fylgir. Heilbrigður lífsstíll þykir mér svo góður. Ég er góð við mig en þá er ég líka fær um að vera góð við fólkið í kringum mig. Það er eins og sálartetrið hækki í tíðni þegar hjartað slær hraðar á æfingu og að ekki sé minnst [á] eftir átök í ræktinni.“

Hvað æfir þú oft í viku og hversu lengi í senn?

„Ég æfi sex daga vikunnar klukkustund í senn. Ég er fædd undir stjörnu nautsins og er því vanaföst. Það sem ég geri er að mæta í BodyPump tímana í Reebok. Þeir ganga út á lyftingar og styrktaræfingar sem eru sérsniðnar til að móta líkama, styrkja og auka úthald. Þetta eru fjölbreyttar æfingar og ég vel mína þyngd sem hentar mér. Svo eru Reebok-stöðvarnar það besta í dag fyrir konu eins og mig.“

Finnst þér æfingaföt skipta miklu máli?

„Já engin spurning. Þægindi, aðhald og endingin er mikilvæg. Ég kolféll fyrir Emory.is sem er íslensk hönnun á íþróttafötum sem ung kona, Anna Sóley Birgisdóttir, hefur hannað fyrir konur.  Ég fer ekki í annað.“

Hver eru grunngildi þín í lífinu?

„Muna alla daga hvað ég er sterk, njóta augnabliks og leggja mig fram við að rækta mig og fólkið mitt. Njóta þess að vera á lífi.“

Hvað gerir þig hamingjusama?

„Lífið og frelsið sem ég er að upplifa á þessum tímapunkti í lífi mínu. Ég er við stjórn.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál