„Ég sagði að ég myndi hengja mig á lóðinni hjá þeim ef ég kæmist ekki inn“

Inga Hrönn Jónsdóttir er gestur Tinnu Barkardóttur sem heldur úti …
Inga Hrönn Jónsdóttir er gestur Tinnu Barkardóttur sem heldur úti hlaðvarpinu Sterk saman.

Inga Hrönn Jónsdóttir er tveggja barna móðir sem hefur glímt við fíkn frá unglingsárum. Hún er nýjasti viðmælandi Tinnu Barkardóttur sem heldur úti hlaðvarpinu Sterk saman. Hún segir frá því í þættinum þegar hún féll á dögunum og var vistuð á geðdeild í framhaldinu. 

„Ég nota orðið fall en sumir segja að sjúkdómurinn taki sig upp aftur eða eitthvað annað. Við notum bara fall því ég var bara í frjálsu falli í þessa daga sem ég var að nota,“ segir Inga Hrönn. 

Hún á langa vímuefnaneyslusögu en hafði náð góðum árangri. Fólk með fíknisjúkdóma þarf stöðugt að vinna í bata sínum og þar sem hún missti aðeins sjónar af verkefni sínu féll hún. 

„Ég upplifði oft fíkn eða mikla vanlíðan en vildi ekki vera með meira vesen en ég hafði nú þegar verið með fyrir fólkið mitt, svo ég lét enga vita. Ég upplifði mig sem vandamál eða að ég væri fyrir, það er ekki góður staður að vera á,“ segir hún.

Mislas stöðuna 

Ingu Hrönn hafði tekist að nota eitt kvöld, í tvö skipti, og stoppa.

„Það er hættulegt að ná því nefnilega, þá held ég að ég geti það bara. Ég ætlaði líka að gera það í þetta skipti, sækja svo börnin mín daginn eftir og skutla í skólann.“ Inga Hrönn segir frá því hvernig tíminn, frá því að hún hringdi í salann og Frú Ragnheiði, þar til hún notaði var. 

„Ég sat úti og beið eftir Frú Ragnheiði, þegar bíllinn kom var vinkona mín að vinna í bílnum,“ segir hún. 

Aðspurð hvernig viðbrögð hún hafi fengið við því að vera að fara að nota og þar af leiðandi falla segir hún:

„Það var bara tekið utan um mig og ég beðin um að fara varlega. Það má örugglega ekki sýna tilfinningar í þessu og þá er maður örugglega ólíklegur til að hringja eftir aðstoð aftur. Það er alltaf tekið vel á móti okkur.“

Geðheilsan í molum

Á innan við sólarhring var Inga Hrönn komin í geðrof. Geðheilsan þolir þetta ástand ekki lengur. Hún leitaði í kjölfarið aðstoðar á geðdeild og var undir miklum áhrifum á fimmtudegi. Þar fékk hún lyf með sér heim og var sagt að mæta edrú mánudaginn eftir til að taka þátt í hópmeðferð.

„Ég hló bara og sagði þeim að það myndi aldrei gerast,“ segir hún. Nóttina eftir fékk hún að sofa úr sér heima hjá vini sínum og vaknaði edrú á föstudeginum.

„Ég grét og grét, mér leið ömurlega í því en þessi vanlíðan var á öðru leveli. Ég var hvött til að fara aftur á geðdeild og tók barnsföður minn með mér,“ segir hún. 

Inga Hrönn grét svo mikið að hún þurfti að taka barnsföður sinn með sér því hún kom varla upp orði. 

„Ég sagði að ég myndi hengja mig á lóðinni hjá þeim ef ég kæmist ekki inn,“ segir hún. 

Við tóku þrjár vikur á fíknigeðdeild.

Dvölin var erfið, Inga Hrönn var nauðungavistuð, fyrst í 72 tíma og síðan í 21 dag.

„Ég var alveg brjáluð fyrst. Hringdi í lögfræðing á laugardagskvöldi og vildi komast út að nota. Það þurfti að sprauta mig niður nokkrum sinnum.“

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál