Unnur Sigurðardóttir sótti innblástur í eyjuna

„Eyja Guldsmeden er rekið í samstarfi við dönsku Guldsmeden hótelin, svokallað franchise, sem reka 9 hótel í 5 löndum. Minn hluti í þessu verkefni gekk út á að hanna almenn rými, þ.e. móttöku, bar, veitingasal, fundarrými, setustofu, ganga og þar frameftir götunum.  Þar sem þetta er hluti af keðju þá þurfti ég að reyna að ná þeim anda sem er á Guldsmeden hótelunum. Þar er lagt mikið upp úr því að andrúmsloftið sé heimilislegt, afslappað og hlýlegt og svo eru húsgögnin sambland af viðarhúsgögnum frá Balí, en þar er eitt af hótelunum, og svo gömlum antik húsgögnum frá Danmörku. Ég fékk þó alveg frjálsar hendur með hönnunina að öðru leyti,“ segir Unnur Sigurðardóttir innanhússhönnuður í samtali við Smartland Mörtu Maríu þegar hún er spurð um nýja hótelið. 

Aðspurð um innblásturinn segir hún að hann hafi aðallega komið frá íslenskri náttúru. 

„Ég sá fyrir mér íslenska eyju, kalda kletta, grænt gras og hafið í kring. Byggingin stendur þarna ein, ekki föst við önnur hús, svolítið kaldur steinn sem er mjög ólíkt öðrum Guldsmeden hótelum sem eru öll staðsett í gömlum fallegum byggingum og allt annar andi í þeim húsum. Það var því smá áskorun að koma þessu saman og búa til hlýlegt og notalegt umhverfi,“ segir hún. 

Unnur notaði kaldan stein og smíðajárn á móti hlýjum við til þess að framkalla þessa stemningu. 

„Ég lét klæða barinn með kúaskinni sem kemur mjög vel út og á móti eru svo stólar í salnum sem eru með sama skinni í bakið. Svo er mikið af grænum plöntum sem gera rýmið hlýlegt. Ég held að mér hafi tekist að fanga þann anda sem Guldsmeden keðjan er þekkt fyrir,“ segir hún. 

Unnur hefur ferðast víða um heim. Þegar ég spyr hana út í það hvað gott hótel þurfi að hafa upp á að bjóða segir hún að þarfirnar séu mjög misjafnar. Það fari eftir hvað hún sé að gera. 

„Mér finnst gott hótel í raun þurfa að standa undir því sem það gefur sig út fyrir að vera, alveg sama hvort það er 5 eða 3ja stjörnu, boutique eða eitthvað annað. Það er svo alls ekki sama hvort maður er í sumarfríi eða vinnuferð, þarfirnar eru misjafnar. Persónulega finnst mér alltaf gaman að vera á fallega hönnuðu hóteli þar sem þjónustan er góð. Svo eru bara þessi grunnatriði eins og góð rúm og sæng, innstungur fyrir þau tæki sem maður er með (að maður þurfti ekki að skríða undir borð til að setja í samband) góðar hreinlætisvörur á herberjum og fleira í þeim dúr,“ segir hún. 

Unnur hefur starfað sem innanhússhönnuður í nokkur ár. Hún er með vinnuaðstöðu heima hjá sér en fer mikið á fundi út í bæ. Þegar ég spyr hana út í hinn hefðbundna vinnudag segir hún að það séu engir tveir dagar eins. 

„Vinnudagurinn hjá mér er aldrei eins. Ég er með mína vinnuaðstöðu heima og suma daga vinn ég heima, teikna o.þ.h. Svo þarf maður er vera á byggingarstað, svona eftir því hvar verkið er statt í ferlinu. Maður þarf líka að fylgjast vel með því sem er í gangi það er, hvaða efni eru í boði, hvað er nýtt á markaðnum, fara í húsgagnaverslanir og allt þetta og það fer því alltaf einhver tími í það. Svo eru fundir og fleira þannig að hver dagur spilast eiginlega bara eftir því hvaða verk er í gangi.“

Hvað finnst þér skipta máli að gera á hverjum degi til að gera hvern dag betri?

„Vinnulega séð þá reyni ég að viða að mér einhverju nýju á hverjum degi og klára það sem ég hef sett mér fyrir daginn en auðvitað gengur það ekkert alltaf upp. Persónulega þá finnst mér mikilvægt að eyða tíma með dætrum mínum þegar allir eru búnir í sínu prógrami á daginn. Mér finnst mikilvægt að ná samveru, borða saman og spjalla eða gera eitthvað skemmtilegt. Ef þetta gengur allt upp finnst mér dagurinn hafa verið góður.“

Hvað gerir þú til að afstressa þig þegar vinnuálagið verður of mikið?

„Ég er ekkert mjög stressuð manneskja en auðvitað koma dagar þar sem álagið er mikið og þá er það bara þannig. Ég reyni hins vegar að stunda hreyfingu og líkamsrækt og jógamottan er mitt uppáhald. Þetta er allt samspil á milli líkama og hugar og ef maður hugar að hvoru tveggja þá nær maður jafnvægi og getur tekist á við erfiða daga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál