Nátengd álfum og huldufólki

Tinna Bessadóttir hönnuður og eigandi Litlu álfabúðarinnar í Hellisgerði.
Tinna Bessadóttir hönnuður og eigandi Litlu álfabúðarinnar í Hellisgerði. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Tinna Bessadóttir lét gamlan draum rætast þegar hún opnaði Litlu álfabúðina við Hellisgerði í Hafnarfirði á dögunum. Tinna lærði fatahönnun í Danmörku og í framhaldinu af því fór hún í nám í almennri hönnun og viðskiptafræði. Hún trúir á álfa og huldufólk og segist hafa fundið fyrir því að það væri gat á markaðnum fyrir fyrirtæki eins og sitt. 

„Í skólanum gerði ég mikla rannsóknarvinnu um íslenskar þjóðsögur, álfa og huldufólk á Íslandi og átti mikið efni og margar ókláraðar hugmyndir eða verkefni sem ég gat hugsað mér að taka lengra. Ein hugmyndin er til dæmis sú að ég á dætur og þær eins og svo mörg önnur börn elskað að klæða sig upp í pólíesterkjóla frá Disney. Yfirleitt hefur það endað í gallabuxum og peysu undir og úlpu yfir til að klæða sig eftir íslensku veðurfari og ískalt pólíesterið hefur ekki hentað okkur mjög vel eða litið vel út með allri þessari dúðun. Mig hefur líka alltaf dreymt um að geta klætt þær upp á þjóðlegan hátt á 17. júní án þess að eyða 2–300.000 kr. í íslenska búninginn sem að má síðan ekki hlaupa eða borða í vegna verðmætis. Ég ákvað því að taka saman þessar hugmyndir og búa til ævintýralega kjóla sem er eftir íslenskum fyrirmyndum eins og huldukonum og fjallkonunni okkar og búa til fallega þjóðlega og hlýja flík sem hennar börnum og foreldrum því hún má fara í þvottavél. Út úr því komu Fjallkonukyrtillinn og Huldukonukyrtillinn sem eru vandaðir handsaumaðir kjólar gerðir úr flísefni undir nafninu INDÍGÓ börn,“ segir Tinna. 

Tinna segir að þjóðin sé nátengd álfum og huldufólki og þetta sé eitthvað sem útlendingar skilja ekki. 

„Allar fjölskyldur eiga álfa sögur eða þekkja til einhvers sem að segjast geta séð eða talað við álfa og huldufólk. Útlendingum þykir þetta ótrúlega merkilegt og hafa mikinn áhuga á þessum sögum og þessari einlægni okkar. Því furða ég mig á því að ekki skuli vera meira til fyrir gestina okkar, það er engin álfaverslun svo að ég hafi heyrt af og nærri engin varningur til. Ég þræddi túristaverslanir og það eina sem ég fann, fyrir utan kínverska blómálfa í einni verslun, var bolur með letrinu „I had sex with an elf in Iceland“. Nóg er til af kínverskum lundum og norskum tröllum með hala en ekkert um huldufólkið okkar. Svo úr því að þessar verslanir voru ekki til, þá var ekkert annað í stöðunni en að opna slíka verslun,“ segir hún. 

Í Litlu álfabúðinni eru eingöngu seldar handgerðar íslenskar vörur úr náttúrulegum efnum að undanskildum handmáluðum álfa fígúrum frá Scheich fyrir börn. 

„Ég sel íslenska hönnun, handsmíðað skart, útskorna fugla, og íslenskt handverk og bækur því þetta byggist allt upp á sögunum okkar. Ég er með álfasögur fyrir börn og útlendinga á mörgum tungumálum og margt fleira sem minnir okkur á álfana, huldufólkið okkar og náttúruna á smekklegan hátt. Ég vel vörurnar vel inn til að þær passi inn í þema verslunarinnar. Svo er ég auðvitað líka með nestiskörfur og teppi sem ég lána út fyrir lautarferðir. Ég sel kaffi, kakó, djús, gos og kökur á viðráðanlegu verði sem er yndislegt að setjast með niður í fallega skjólgóða laut í Hellisgerði og njóta friðarins og náttúrunnar. Þar getur maður aðeins kúplað sig út frá daglega amstrinu þarna þó svo að þetta sé rétt í miðbæ Hafnarfjarðar,“ segir Tinna. 

Litla álfabúðin er í Hellisgerði í Hafnarfirði. Tinna elskar þennan stað og segir að það sé eins og að vera uppi í sveit að vera í Hellisgerði. 

„Hellisgerði er ótrúlega skjólgóður og það er alltaf aðeins betra veður þarna en bara hinumegin við götuna einhverahluta vegna. Ætli það sé ekki hraunið og hár trjágróðurinn sem veiti skjólið. Flestir hafnfirðingar þekkja garðinn vel og flest hafnfirsk börn þekkja garðinn út og inn enda yðar hann af börnum langt fram á kvöldin. Ég þekkti hana Ragnhildi Jónsdóttur sjáanda sem hefur rekið þetta húsnæði sem Álfagarðinn fyrir, og var einmitt nýbúin að taka viðtal við hana út af rannsóknavinnu sem ég var að gera um klæðaburð huldufólks. Ég frétti að hún væri að hætta og sótti um að leigja húsnæðið, það eiginlega bara datt í fangið á mér.“

Tinna er Hafnfirðingur og hefur sjálf mikinn áhuga á álfum og huldufólki. Þegar hún er spurð út í þann áhuga segir hún að áhuginn komi úr umhverfinu. 

„Dóttir mín leikur sér til dæmis daglega við veru sem hún kallar Kötu og upp úr henni koma margar skemmtilegar sögur sem ég hef ákaflega gaman að. En það sem opnaði augun mín var þegar ég fór með vinkonu mína sem kemur frá New York og mömmu hennar og frænku í göngu um Hafnarfjörð og var að segja þeim sögur af gamla bænum þar sem hús eru bókstaflega byggð inn í álfakletta til að huldufólkið haldi heimilunum sínum. Þarna sem sagt tók ég eftir gati í ferðaþjónustunni á Íslandi. Mér þykir gaman að segja fólki frá þessari trú okkar því hún byggist að miklu leyti upp á orku og tengingu við og virðingu fyrir náttúrunni sem ég held að allir hefðu gott af að tileinka sér hvort sem trú á álfa sé fyrir stafni eða ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál