Hannaði tannbursta sem seldur verður á heimsvísu

Kristín J. Rögnvaldsdóttir, viðskiptastjóri hjá John Lindsay, og Guðný Magnúsdóttir, …
Kristín J. Rögnvaldsdóttir, viðskiptastjóri hjá John Lindsay, og Guðný Magnúsdóttir, sem hannaði Fingerprint-tannburstann og bar sigur úr býtum.

Guðný Magnúsdóttir bar sigur úr býtum í Jordan-leik sem heildverslunin John Lindsay stóð fyrir nýverið. Almenningi var boðið að senda inn eigin hönnun á tannburstum og voru 10 þátttakendur valdir í úrslit af sérstakri dómnefnd þar sem meðal annars var að finna Hugleik Dagsson.

Jordan-leikurinn fór fram í fjölmörgum löndum og Guðný stóð uppi sem sigurvegari en hún hannaði tannburstann Fingerprint. Tannbursti Guðnýjar mun svo koma í verslanir í júlí á þessu ári víða um heim en Jordan er einn stærsti tannburstaframleiðandi heims. Fingerprint verður einn af þeim tannburstum sem framleiddir eru sem 10 ára afmælisútgáfa Jordan Individual sem er mest seldi tannburstinn á Norðurlöndunum.

„Það er auðvitað mikill og óvæntur heiður að tannburstinn sem ég hannaði verði framleiddur af Jordan og seldur víða um heim. Ég tók þátt í leiknum eiginlega alveg óvart ef þannig má að orði komast og því var það reglulega óvænt ánægja þegar mér var tilkynnt að ég hafi unnið keppnina. Mér datt í hug að nota fingrafar þar sem það er okkar sérkenni eins og tennurnar okkar. En það var það sem þeir hjá Jordan hrifust svo mikið af. Það er einnig skemmtileg tilviljun að sambýlismaður minn er tannlæknir svo hann er að vonum stoltur af þessu,“ segir Guðný sem starfar sem sölustjóri hjá 1819.is.

Hún segist hafa haft gaman af hönnun síðan hún var kornung.

„Ég ætlaði mér alltaf að fara í einhvers konar listnám sem unglingur. Og hver veit nema þetta leiði mann í einhverjar listrænar áttir,“ segir hún og brosir.

Guðný fékk einnig 150.000 króna ferðavinning að eigin vali frá Heimsferðum fyrir sigurinn í Jordan-leiknum og 100 tannbursta af eigin hönnun.

„Þetta var skemmtileg reynsla og gaman að hafa tekið þátt. Ferðavinninginn ætla ég að nota í að fara til Ítalíu í sumar en þangað hef ég ekki komið og nú er aldeilis tækifæri til,“ segir Guðný að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál