Við „svindlum“ aldrei

Karl Eiríksson kokkur.
Karl Eiríksson kokkur. mbl.is/Árni Sæberg

„Við tókum að okkur matseld fyrir Ísaksskóla og Landakotsskóla síðastliðið haust og það er skemmtilegt og krefjandi verkefni,“ segir Karl Eiríksson, annar eigandi Móður náttúru. „Börnin fá fisk, kjöt og grænmetisrétti en engar unnar kjötvörur og þetta gengur mjög vel. Það er mjög nærandi að gefa börnunum að borða og við gætum vel hugsað okkur að bæta við okkur verkefnum, núna þegar komin er góð reynsla á skólamatinn.“

Karl hefur starfað við eldamennsku frá árinu 1979. „Ég kynntist konunni minni, Valentínu Björnsdóttur, þegar við unnum saman á Grænum kosti. Hún fór svo að elda á Laufásborg og þá fæddist hugmyndin að Móður náttúru sem við stofnuðum 2003. Við vildum bjóða upp á holla grænmetisrétti fyrir skóla, leikskóla og mötuneyti þar sem ekkert slíkt var í boði. Í nóvember 2010 keypti Móðir náttúra veitingahúsið Krúsku og hefur Valentínu, sem sér um staðinn, og starfsfólkinu hennar tekist að skapa afar skemmtilega stemningu þar og bjóða frábæran mat.“

Silungur í aðalhlutverki

Aðspurður segir hann ýmislegt í bígerð hjá Móður náttúru. „Við erum með skemmtilega vörulínu á teikniborðinu sem verður undir Krúsku-nafninu og við munum kynna fljótlega.“

Tveir kokkar á heimilinu, hver eldar eiginlega?

„Valentína er listakokkur en ég elda samt oftast heima,“ segir Karl. „Við borðum sjaldan svínakjöt og unnar kjötvörur en mikið af grænmeti, fiski og kjúklingi. Ég veiði silung á sumrin þannig að hann er tvisvar til þrisvar í viku í matinn yfir sumartímann. Á sunnudögum borðum við annaðhvort lamb eða kjúkling, annars er ekki mikið um matarhefðir á heimilinu. Við borðum allan venjulegan mat og yfirleitt er hann í hollari kantinum. Við „svindlum“ aldrei vegna þess að við lítum ekki á það sem svindl að fá sér eitthvað minna heilsusamlegt stöku sinnum.“

Kaupmaðurinn á horninu

Hann segist fyrst og fremst versla hjá kaupmanninum á horninu. „Við búum í vesturbænum, rétt hjá Melabúðinni, og verslum mikið þar. Valentína segir: Ef það fæst ekki í Melabúðinni þá þurfum við ekki á því að halda.“

Hvað með veitingastaði, hverjir standa upp úr?

„Við erum hrifin af ítalskri eldamennsku en förum frekar lítið út að borða hérna heima. Um daginn fórum við reyndar á Pisa í Lækjargötu og fengum frábæran mat, þetta er mjög huggulegur staður. Ef við erum í stuði fyrir eldbakaða pitsu þá er Eldofninn á Bústaðavegi frábær, það er enginn sem toppar þá í pitsum. Okkur finnst langskemmtilegast að fara út að borða í London, þar er úrvalið af góðum veitingahúsum æðislegt. Við erum hrifin af indverskum mat og uppáhaldsveitingastaðurinn okkar, sem er indverskur, er einmitt í London og heitir Chutney Mary.“

Karl veiðir eins og áður sagði silung á sumrin og gefur uppskrift að silungasúpu sem sjö ára dóttir hans hefur pantað í afmælisveisluna sína undanfarin þrjú ár.

Hann lætur einnig fylgja með uppskrift að köldum hafragraut úr heilum höfrum sem allir á heimilinu eru sólgnir í.

Afmælissúpa Stínu

3 msk. olía

1 bolli saxaður laukur

1 bolli rifin sæt kartafla

1/2 bolli rauð paprika, skorin í strimla

2 hvítlauksrif, söxuð

1 tsk. saxaður engifer

2 msk. rautt curry paste

safi úr 1 lime

salt

500 g niðursoðnir tómatar, maukaðir

5 dl kókosmjólk

vorlaukur

ferskt kóríander

300 g roðflett silungsflök, skorin í strimla

Laukur og sætar kartöflur látið krauma í olíu í ca. 5 mín., papriku og kryddi bætt út í og eftir 3 mín. er tómötum, kókosmjólk og lime-safanum bætt við.

Soðið við hægan hita í 10-15 mín., silungur, kóríander og vorlaukur þá sett í skál, súpunni hellt yfir og borið fram með góðu brauði.

Kaldur hafragrautur

500 g heilir hafrar, lagðir í bleyti í 6-8 tíma

1 l vatn

2 græn epli

rúsínur eftir smekk

1-2 msk. kanill

Hafrarnir skolaðir og settir í pott ásamt vatninu, eplin flysjuð og skorin í litla teninga og sett í pottinn ásamt rúsínunum og kanil.

Suðan látin koma upp og hrært í á meðan, hitinn lækkaður og látið malla í um 20 mín. Grauturinn látinn kólna í pottinum; ég set viskustykki yfir og læt hann standa við opinn glugga yfir nótt.

Valentína Björnsdóttir, Karl Eiríksson og Kristín Shurui, dóttir þeirra. Myndin …
Valentína Björnsdóttir, Karl Eiríksson og Kristín Shurui, dóttir þeirra. Myndin var tekin fyrir nokkrum árum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert