Klassískar hreindýrabollur með rjómasósu

Hreindýrahakkið má nota í ýmislegt og þá ekki síst í gómsætar hreindýrabollur. Hér er klassísk uppskrift að slíkum bollum þar sem villibráðabragð hreindýrsins nýtur sín til fulls með einiberjum og öðrum kryddum ásamt mildri rjómasósu sem dregur fram bragð þeirra.

Bollurnar

  • 600 g hreindýrahakk
  • 2 brauðsneiðar
  • 1,5 dl mjólk
  • 1 msk Worchester-sósa
  • 1 msk “villijurtir” frá Pottagöldrum
  • ca 10 einiber
  • 2 tsk sjávarsalt
  • 1 tsk nýmulinn pipar

Setjið brauðið í skál ásamt mjólkinni og bleytið það vel.  Myljið einiberin vel í morteli. Setjið kryddin í skál og blandið saman. Bætið kjötinu við og Worchester-sósunni og hrærið vel saman. Takið brauðið upp úr mjólkinni, maukið það í litla bita og blandið saman við kjötið. Mótið kjötbollur úr blöndunni.

Það er gott að geyma bollurnar í kæli í um klukkustund áður en þær eru eldaðar. Takið þær út úr ísskápnum og veltið upp úr hveiti.

Hitið olíu og smjör saman á pönnu og brúnið bollurnar í 3-4 mínútur á hvorri hlið. Setjið í eldfast mót og inn í 180 gráða heitan ofn á meðan að þið gerið sósuna á sömu pönnu og bollurnar voru steiktar á.

Rjómasósa

  • 2 dl hvítvín
  • 2,5 dl rjómi
  • 1 msk sojasósa
  • 2 msk kálfafond frá Touch of Taste
  • 1 msk Worchesterr-sósa
  • 2 msk sulta, t.d rifsberja
  • 1 msk Dijon-sinnep

Hitið pönnuna og hellið hvítvíninu út á ásamt kálfakraftinum, sojasósu og Worchester. Leysið skófarnar á pönnunni upp með sleif og látið vínið malla í smá stund eða þar til að það hefur soðið niður um tæpan helming. Bætið rjómanum út á og látið malla áfram á vægum hita þar til að sósan fer að þykkna. Bætið sultunni saman við. Alveg undir lokin er sinnepið pískað saman við.

Með þessu er gott að hafa pönnusteiktar kartöflur kryddaðar með kryddjurtum, t.d. rósmarín eða timjan. Það er líka hægt að velja einhverjar af kartöfluuppskriftunum sem er að finna hér.

Þá er frábært að hafa heimatilbúið rauðkál með. Uppskriftir má finna með því að smella hér.

Með þessu kröftugt og mjúkt rauðvín, t.d. frá Bordeaux eða Rioja. Hvers vegna ekki Cune Reserva.

Allar kjötbolluuppskriftirnar má sjá hér.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert