Kennaraverkfallið kom sér vel

Pétur Blöndal.
Pétur Blöndal. mbl.is/Golli

Pétur Blöndal segir kennaraverkfallið hafa komið sér vel fyrir páskaeggjaframleiðsluna enda vill verða mikill skortur á lausu starfsfólki á þessum tíma árs til að hjálpa til við mannaflsfreka páskaeggjagerðina.

Pétur er framkvæmdastjóri sælgætisgerðarinnar Freyju og segir hann að á hápunkti páskeggjavertíðarinnar þurfi allt að þrjátíu manns til að setja saman þær þrettán mismunandi útfærslur páskaeggja sem Freyja framleiðir.

Ferlið er flókið og tímarekt. „Þegar búið er að setja súkkulaðið í mótin eru þau sett í svokallaðan „spinner“ sem dreifir súkkulaðinu jafnt um þau. Því næst fara mótin í kæligöng þar sem súkkulaðið harðnar og svo eru skeljarnar slegnar úr mótunum. Því næst er allt innvolsið sett inn um litla gatið aftan á egginu sem loks er lokað með tappa. Er þá ekkert eftir nema að setja ungann eða aðra fíguru efst á eggið, skreyta skelina, pakka öllu inn í sellófan og setja í kassa. Flutningamenn okkar verða svo að sýna mikla varkárni þegar þeir flytja þessa viðkvæmu vöru til verslana hringinn í kringum landið.“

Byrja að steypa fyrir jól

Árlega framleiðir Freyja um 450.000 egg að sögn Péturs og þarf að hefja framleiðsluna strax fyrir jól. „Álagið eykst smám saman eftir því sem páskarnir nálgast og síðustu vikurnar er algengt að unnið sé við páskaeggjagerðina frá því snemma morguns til miðnættis. Mikið er þá í gangi í verksmiðjunni og gaman að fylgjast með allri vinnunni.“

Freyja er tiltölulega nýlegur þátttakandi á páskaeggjamarkaðinum en hefur sótt á keppinautana jafnt og þétt. Pétur segir það m.a. skýra vaxandi vinsældir Freyju-eggjanna að fyrirtækið ruddi brautina í þróun nýstárlegra eggja þar sem góðgæti er blandað í sjálfa súkkulaðiskelina. „Freyja er þekktust fyrir súkkulaðisælgæti þar sem lakkrís eða rískúlum er blandað saman við súkkulaðið. Við yfirfærðum þetta sérkenni okkar yfir á páskaeggin með góðum árangri.“

Hann segir Freyju líka hafa lagt áherslu á að skapa barnvænan ævintýraheim í kringum páskaeggin. „Þar hafa orðið til skemmtilegar sögupersónur sem börnunum þykir gaman að tengjast og eru hluti af þeirri upplifun að fá Freyjuegg. Markaðsstarfið hefur í þessum sama anda beinst mjög að fjölskyldufólki og stóðum við t.d. fyrr í apríl fyrir vel sóttri páskaeggjaleit í Öskjuhlíð þar sem fullorðnir og börn skemmtu sér konunglega við að leita uppi fjársjóðskistur með Freyjueggjum.“

Smá Stormsker á páskum

Pétur segir vöruþróun Freyju m.a. hafa beinst að því að gera egg sem höfða til fullorðinna. Var það t.d. gert með svokölluðum Stormskerseggjum. „Það framtak vakti víða mikla kátínu en í þeim eggjum var gömlu málsháttunum skipt út fyrir spakmæli meistara Sverris Stormskers. Þar sem þau voru meira „fullorðins“ voru þessi egg ekki fáanleg hvar sem heldur einungis seld í verslunum 10-11.“

Vöruþróuin hefur líka snúist um að mæta páskaþörfum fólks með sérstakar næringarlegar þarfir. „Við framleiðum m.a. sykurlaust páskaegg fyrir þá sem þurfa að stilla sykur- eða kolefnaneyslunni í hóf og mjólkurlaust páskaegg fyrir þá sem hafa mjólkuróþol.“

Svo vel hefur gengið með páskaeggin að vinsældir þeirra ná út fyrir Íslandsstrendur. „Útflutningur til Færeyja fer stöðugt vaxandi og smám saman að verða til allsterk hefð fyrir Freyju-eggjum hjá nágrönnum okkar í suðri.“

Girnileg eru þau páskaeggin.
Girnileg eru þau páskaeggin. mbl.is/Golli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert