Páskaföndur fjölskyldunnar

Ágúst og amma Solla.
Ágúst og amma Solla. mbl.is/Árni Sæberg

„Páskaföndrið í minni fjölskyldu felst í því að búa til okkar eigin súkkulaðiegg, það hefur verið okkar hefð síðastliðin 20 ár,“ segir Sólveig Eiríksdóttir, heilsu- og hráfæðiskokkur, betur þekkt sem Solla í Gló. Elsta dóttirin, Hildur Ársælsdóttir, tók þátt í páskaeggjagerðinni með móður sinni í ár eins og venja er og með henni í fyrsta sinn fjögurra ára gamall sonurinn, Ágúst Arnarson.

„Ágúst ömmugull fékk nú loksins að vera með okkur Hildi í páskaföndrinu. Hann fær sitt fyrsta súkkulaðiegg í ár og þar með er búið að vígja hann inn í páskaeggjaklúbbinn. Við fjölskyldan elskum að gera okkar eigin páskaegg, annaðhvort úr heimagerðu súkkulaði eða úr lífrænu og sanngirnisvottuðu súkkulaði, Fair Trade.“

Gulgrænt í vasa

Eruð þið mæðgur mikil páskabörn?

„Okkur hefur alltaf fundist páskarnir skemmtilega afslöppuð og vorleg hátíð,“ segja Solla og Hildur. „Gulur er uppáhaldsliturinn okkar beggja og skemmtilegt að skreyta heimilið með gula litnum, sérstaklega með lifandi blómum. Við kaupum því alltaf páskaliljur í pottum, þær tilheyra þessari hátíð. Greinarnar úr garðinum minna okkur á vorið; það er fallegt að hengja á þær páskaskraut og gaman þegar þær byrja að grænka í vasanum.“

Leiknir málshættir

Aðrar páskahefðir?

„Í okkar fjölskyldu höfum við haft fyrir sið að lokinni páskamáltíðinni, þegar allir eru búnir að opna sitt páskaegg, að hver og einn leiki sinn málshátt. Hinir fá það verkefni að giska. Það gengur auðvitað misvel, því sumir málshættir eru flóknari í útfærslu og leikrænni túlkun en aðrir. Okkur finnst þetta öllum vera mjög skemmtileg hefð sem kitlar hláturtaugarnar.“

Páskamaturinn – alltaf eitthvað nýtt á borðum?

„Við höfum alltaf mismunandi grænmetisrétti í páskamatinn. Við erum báðar mjög duglegar að prófa ýmsar nýjungar í matreiðslu en nennum kannski frekar að búa til eitthvað nýtt þegar við erum í fríi og höfum meiri tíma til að stússa í eldhúsinu.“

Er vandasamt að útbúa súkkulaðiegg?

„Við erum auðvitað í góðri þjálfun mæðgurnar, eftir að hafa gert okkar eigin páskaegg í 20 ár, en þetta er satt að segja ekkert flókið þegar maður er með góð form. Hér áður fyrr fengust páskaeggjaformin bara í versluninni Pipar og salt en núna fást þau líka í Hagkaupum og víðar.“

Páskaegg úr heimagerðu súkkulaði

½ dl kaldpressuð kókosolía

½ dl kakósmjör

1 dl 100% hreint kakóduft

½ dl kókospálmasykur eða önnur sæta

smá sjávarsalt og nokkur korn cayenne-pipar.

Fljótandi kókosolía: látið renna heitt vatn á kókosolíukrukkuna eða setjið krukkuna í skál með um 50°C vatni.

Fljótandi kakósmjör: setjið pokann í um 40°C heitt vatn eða bræðið yfir vatnsbaði.

Takið páskaeggjaform og látið nokkrar skeiðar af súkkulaðinu í formið, hallið forminu fram og tilbaka þannig að súkkulaðið renni um formið og þeki það. Setjið bökunarpappír á plötu og snúið formunum á hvolf á plötuna og látið súkkulaðið storkna. Þið farið eins að með fótinn. Þetta tekur um fimm mínútur en þið getið flýtt fyrir með því að setja formin inn í frysti/kæli. Endurtakið a.m.k. tvisvar til fimm sinnum – fer allt eftir því hve vel ykkur tekst til við að þekja formin og hve þykk súkkulaðiskelin er orðin.

Þegar skeljarnar eru tilbúnar er um að gera að setja málshátt og fleira spennandi inn í eggið. Egginu er lokað með því að nota fljótandi súkkulaði sem lím, því er smurt á kantinn á annarri skelinni og síðan er eggið límt saman. Þar næst setjið þið smá súkkulaðilím á fótinn og festið eggið á hann. Til að laga kantana setjið þið súkkulaði í sprautupoka og sprautið því allan hringinn. Svo má skreyta með sælgæti eða pallíettum og öllu þar á milli. Að lokum er páskaunginn festur á og eggið er tilbúið.

Páskaegg úr lífrænu Fair Trade-súkkulaði

Við notuðum súkkulaðið frá Himneskt og lékum okkur með allar tegundirnar; dökkt, ljóst og hvítt súkkulaði. Sama aðferð og með heimagerða súkkulaðinu nema hér er súkkulaðið brætt yfir vatnsbaði við vægan hita.

Sykurlaust páskaegg

2 msk kókosolía, fljótandi

2 msk kakósmjör, bráðið

2 msk kakóduft

5 dropar stevía (magn fer eftir smekk en passið að stevían er mjög sæt og því þarf mjög lítið af henni)

Hrærið öllu saman í skál, fyllið lítil páskaeggjamót með þessari blöndu, setjið inn í ísskáp/frysti og látið stífna.

Konfektkúlur

3 dl pekanhnetur

3 dl fínt saxaðar döðlur

1 dl hampfræ

3 msk kakóduft

2 msk rifið appelsínuhýði

1/8 tsk chili-pipar

himalajasalt á hnífsoddi

3-5 kaffidropar eða súkkulaðidropar (fást í Heilsubúðum, má sleppa)

Setjið hneturnar í matvinnsluvél og malið frekar smátt. Passið að hafa ekki of lengi svo olían pressist ekki út úr hnetunum. Bætið restinni af uppskriftinni út í og blandið vel saman, þetta tekur nokkrar mínútur. Mótið litlar kúlur sem hægt er að velta upp úr hnetumulningi, kókosmjöli eða kakódufti ef vill. Geymast í nokkrar vikur í loftþéttu íláti í kæli/frysti.

Möndludraumur

½ dl kakósmjör

½ dl kókosolía

½ dl kakóduft

½ dl hlynsíróp (eða önnur sæta að eigin vali)

½ dl goji-ber

½ dl möndlur, gott að þurrrista í ofni eða á pönnu

1 tsk vanilla, duft eða dropar

1 tsk gróft sjávar- eða himalajasalt

Skerið kakósmjör í litla bita og bræðið yfir vatnsbaði. Hrærið kókosolíu, kakódufti, sætunni, vanillu og salti út í og blandið vel saman. Bætið út í goji-berjum og söxuðum möndlum. Setjið í skemmtileg form og inn í ísskáp. Geymist í loftþéttu íláti í kæli í tvær til þrjár vikur.

Solla Eiríks að búa til páskaegg.
Solla Eiríks að búa til páskaegg. mbl.is/Árni Sæberg
Hildur Ársælsdóttir, dóttir Sollu.
Hildur Ársælsdóttir, dóttir Sollu. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert